Innlent

Gleymdi sér og augnabliki síðar rigndi gleri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Löng bílaröð myndaðist frá Höfðabakkabrúnni og alla leið niður að Grensásvegi. Þessi mynd er tekin þar sem Réttarholtsvegur fer yfir Miklubraut.
Löng bílaröð myndaðist frá Höfðabakkabrúnni og alla leið niður að Grensásvegi. Þessi mynd er tekin þar sem Réttarholtsvegur fer yfir Miklubraut. Vísir/Egill
Ökumaður flutningabíls á leiðinni austur fyrir fjall með glerplötur ætlaði að beygja útaf Vesturlandsvegi við bensínstöð N1 í Ártúnsholti til að þurfa ekki að aka undir Höfðabakkabrúna. Hann var hins vegar af einhverjum ástæðum annars hugar og sekúndum síðar regndi glerbrotum yfir bíla beggja vegna flutningabílsins. Yfirmaður hjá umferðardeild lögreglu segir mikla heppni að enginn hafi slasast þegar glerplöturnar mölbrotnuðu þegar bílnum var ekið undir brúna.

Löng bílaröð myndaðist í um klukkustund allt frá Höfðabakkabrúnni og niður á Grensásveg á sjöunda tímanum í gærkvöldi vegna slyssins. Maðurinn ók flutningabíl með opnum gámi og stóðu glerplötur upp úr gámnum.

Hreinsunarlið að störfum í klukkustund

„Ökumaðurinn ætlaði að beygja hjá N1 til að losna við að fara undir brúna. Hann gleymdi sér augnablik á kaflanum og vissi ekki fyrr en hann hafði rekið glerið undir brúna,“ segir Ómar Smári Ármannsson, yfirmaður á umferðardeild lögreglu.

Hann segir bíl hafa verið beggja vegna flutningabílsins sem hafi fengið yfir sig mikið magn glers. Mikla mildi megi telja að enginn hafi slasast. Veginum var lokað rétt vestan við Höfðabakkabrúna og hreinsunarlið kallað út. Magn glerbrots var afar mikið eins og sjá má í myndbandinu að neðan.

Ómar Smári segir merkingar í góðu lagi á svæðinu og aðeins gleymska hafi orsakað slysið. Í aðdraganda þess að komið sé að brúnni sé merking um hæðina og þeir sem starfi við flutninga séu allajafna meðvitaðir um það. Allir geta hins vegar gleymt sér.

Akstur krefst einbeitingar

Aðspurður hvort grunur leiki á að ökumaðurinn hafi verið í símanum eða hvað hafi gerst segir Ómar Smári ökumanninn einan til svars. Hann hafi skiljanlega verið niðurbrotinn að hafa yfirsést þetta.

„Þetta minnir á að akstur sem þessi, og allur akstur ef út í það er farið, krefst einbeitingar.“

Fleiri dæmi séu um að ökumenn flutningabíla og vörubíla með krana gleymi sér. Þá gleymist oftast að setja niður pallinn eftir að sturtað hefur verið úr bílnum eða að setja niður kranann.

„Nálægir vegfarendur geta verið í stórhættu ef eitthvað ber útaf. Hingað til hefur þetta sloppið en stundum hefur munað litlu,“ segir Ómar Smári.

Hann segir ástæðu til að hafa varann á víðar en við Höfðabakkabrúnna en eðlilega séu slys tíðari þar en annars staðar enda umferðarþunginn mikill þar sem umferð um Suðurlands- og Vesturlandsveg mætist.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×