Innlent

Ofurlaunahækkanir grafi undan sátt á vinnumarkaði

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Formaður VR segir ákvörðun VÍS um að hækka laun stjórnarmanna fyrirtækisins um 75 prósent ganga þvert á þá stefnumörkun sem gerð var með nýjum kjarasamningum.

Vís er að stórum  hluta í eigu stærstu lífeyrissjóðanna. Mánaðarleg laun stjórnarmanna fara úr 200 þúsund krónum í 350 og laun stjórnarformanns hækka um 50 prósent og verða 600 þúsund krónur.

Þessi hækkun var raunar ákveðin á aðalfundi félagsins í mars á þessu ári, en vegna kjaradeilna og háværrar umræðu í samfélaginu á þeim tíma var ákveðið að falla frá hækkuninni. Stjórnin hefur nú ákveðið að hækka laun sín í samræmi við það sem áður var búið að ákveða.

Það hefur vakið athygli, ekki síst vegna þess að Vís sendi í nóvember bréf á viðskiptavini sína þar sem tilkynnt var að iðgjöld yrðu hækkuð vegna slæmarar afkomu. Vís hagnaðist um tvo milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins sem er helmingi meiri gróði en á sama tíma í fyrra. 

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, bendir á að hækkunin sé langt umfram það sem samið var um á almennum markaði.

„Þegar við gerðum okkar samninga var það stefnumarkandi. Þessi ákvörðun hjá stjórn VÍS er að ganga þvert á það. Við höfum miklar áhyggjur af því að samningarnir okkar opnist í febrúar, einfaldlega vegna þess að það eru margir aðrir búnir að fara langt fram úr þeim samningum. Ég vonast til þess að stjórn VÍS átti sig á þessari afstöðu sinni. Líka varðandi réttlætið á þjóðarkökunni okkar, að við séum að skipta henni sambærilega, þeir eru ekki að gera það,“ segir Ólafía. 

Ekki náðist í Herdísi Dröfn Fjeldsted, stjórnarformann VÍS við vinnslu fréttarinnar en félagið sendi síðdegis í dag frá sér fréttatillkynningu þar sem fram kemur að launakjör stjórnarmanna VÍS séu svipuð því sem gerist í sambærilegum félögum á markaði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×