Innlent

Fatlað fólk skapar sér frumkvöðlavettvang

Una Sighvatsdóttir skrifar
Nútímatækni hefur haft mikil áhrif til þess að bæta lífsgæði fatlaðs fólks. Sjálfsbjörg hefur nú stofnað vettvang fyrir frumkvöðlastarf á sviði rannsókna- og tækniþróunar sem nýst geti hreyfihömluðum.

Nýstofnuð frumkvöðlamiðstöð Sjálfsbjargar hlaut nafnið Frumbjörg. Talsmenn hennar segja að vannýtt tækifæri séu fyrir nýsköpun í velferðariðnaði á Íslandi. Um leið er markmiðið að styðja fatlaða í að skapa sín eigin atvinnutækifæri.



Fatlað fólk skortir atvinnutækifæri

„Fatlað fólk á að geta búið sér til vettvang,  búið sér til eigin atvinnu í velferðartengdum lausnum. Þar getur það átt sinn starfsframa, sem samfélaginu í heild hefur ekki fyllilega tekist að búa til ramma utan um," segir Bergur Þorri Benjamínsson, starfandi formaður Sjálfsbjargar.

Brandur Bjarnason Karlsson, stofnandi Frumbjargar, segir hún sé svar við ákalli eftir frumkvöðlavettvangi til að vinna að úrlausnum á heilbrigðiskerfisvandamálum -og velferðarvandamálum. Hann bætir við að liðsmenn Sjálfsbjargar hafi góða innsýn í þarfir fatlaðra. „Við vitum manna best að það skortir tækifæri fyrir fatlaða til að taka þátt í vinnumarkaðnum. Það vilja langflestir leggja sitt af mörkum, en það vantar tækifærin."

Stýrir tölvunni með augunum

Meðal fatlaðra er fylgst náið með þeirri byltingu sem stendur yfir í tækniþróun enda hefur hún þegar haft mikil áhrif á lífsgæði margra. Brandur nefnir sem dæmi að fyrst eftir að hann fatlaðist átti hann mjög erfitt með að nota tölvu en fyrir um þremur árum fékk hann tölvu sem hann getur sýrt með augunum.

Þá hefur Bergur Þorri sem dæmi sérpantað sér bíl frá Þýskalandi sem búinn er hagkvæmri, fjarstýrðri lyfti svo auðvelt er fyrir hann að koma sér á hjólastólnum inn í bílinn á eiign spýtur. „Það eru ekki margir áratugir síðan það var þannig að ef einstaklingur varð fyrir miklum líkamsskaða gat hann hvorki keyrt bíl, né opnað eina einustu hurð hvað þá meira. Þannig að allar lausnir og tækninýjungar hafa komið fötluðu fólki sérstaklega vel."

Miklar væntingar til framtíðarþróunar tækninnar

Snjallvæðing raftækja til daglegra nota hefur líka auðveldað mörgum fötluðum lífið og miklar vonir eru bundnar við frekari þróun slíks búnaðar.

„Til dæmis er vinur minn í Danmörku að þróa græju sem hann ætlar að prófa á hjólastólnum mínum, sem mun gera mér kleift að stýra hjólastólnum með augunum og röddinni. Þannig að ég mun geta sagt „kveiktu á þér" og svo get ég bara horft á þann stað sem ég vil fara og stóllinn fer með mig þangað sjálfkrafa," segir Brandur.

Frumkvöðlamiðstaðin hefur fengið inni í húsi Sjálfsbjargar en hópsöfnun stendur nú yfir til þess að efla aðstöðuna. Hægt er að styrkja starfið hér á vef Karolina Fund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×