Innlent

Landhelgisgæslan fái vinnustöð á Sauðárkróki

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Varðskip Landhelgisgæslunnar eru þrjú: Þór, Ægir og Týr. Hér má sjá varðskipið Þór við Ægisgarð.
Varðskip Landhelgisgæslunnar eru þrjú: Þór, Ægir og Týr. Hér má sjá varðskipið Þór við Ægisgarð. vísir/gva
Kannaður verður ávinningur þess að koma upp varanlegri starfsstöð og heimahöfn fyrir eitt skip Landhelgisgæslunnar á Sauðárkróki. Í þeirri könnun verður horft til eftirlits- og björgunargetu á svæðinu og viðbragðsgetu vegna mengunarslysa.

Þetta er hluti aðgerðaráætlunar sem samþykkt var í ríkisstjórn í gær, til að styrkja innviði, atvinnulíf og samfélag á Norðurlandi vestra með margvíslegum aðgerðum. Markmiðið með þeim er að skapa þjóðhagslegan ávinning og aðstæður svo góðum framtíðarstörfum á svæðinu fjölgi.

Í tilkynningunni segir að tilgangur aðgerðanna sé að snúa við neikvæðri byggðaþróun á Norðurlandi vestra og efla mannlíf. „Íbúum hefur fækkað mikið á undanförnum áratugum og útsvarstekjur sveitarfélaganna af hverjum íbúa eru lægri en landsmeðaltal. Menntunarstig er lægra og hagvöxtur minni,“ segir greinargerð á vef forsætisráðuneytisins.

Fleira verður gert. Til dæmis verður stofnaður atvinnu- og nýsköpunarsjóður fyrir Norðurland vestra, vinnuaðstaða verður sköpuð á Sauðárkróki fyrir frumkvöðla og verkefnum við Háskólann á Hólum verður fjölgað. Þá verður ný þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins á Sauðárkróki stofnuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×