Innlent

Afskrifa 500 milljónir af skuldum Búmanna

Ingvar Haraldsson skrifar
Kröfuhafar Búmanna samþykktu nauðasamning með 91 prósenti greiddra atkvæða. Níutíu prósent kröfuhafa greiddu atkvæði.
Kröfuhafar Búmanna samþykktu nauðasamning með 91 prósenti greiddra atkvæða. Níutíu prósent kröfuhafa greiddu atkvæði. vísir/anton brink
Íbúðalánasjóður afskrifar um hálfan milljarð króna af lánum til húsnæðissamvinnufélagsins Búmanna sem hluta af fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins.

Gunnar Kristinsson, stjórnarformaður Búmanna,segir að ganga eigi frá samkomulagi þess efnis í næstu viku. Íbúðalánasjóður hefur lánað félaginu yfir 13 milljarða króna til að byggja íbúðir fyrir 50 ára og eldri.

Kröfuhafar Búmanna samþykktu nauðasamning félagsins með 91 prósenti atkvæða á kröfuhafafundi á fimmtudag. Félagið hefur verið í greiðslustöðvun frá því í maí.

Gunnar Kristinsson stjórnarformaður Búmanna Búmenn
Gunnar segir miklu fargi létt af búseturéttarhöfum. „Nú er félagið komið fyrir vind og getur farið að einbeita sér að því að reka sig.“

Samkvæmt nauðasamningnum falla búsetrétthafar í 303 af 540 íbúðum Búmanna frá rétti til innlausnarskyldu. Hún hafði í för með sér að Búmenn hefðu skuldbundið sig til að kaupa til baka búseturétt íbúa íbúðanna sem félagið réð ekki við að greiða. Um síðustu áramót námu langtímaskuldir vegna bókfærðs búseturéttar 1,5 milljörðum króna.

Þá á að stofna á sérstakt leigufélag um 68 auðar íbúðir í eigu Búmanna, flestar á Reykjanesi og í Hveragerði. Íbúðir verða reknar af Búmönnum sem verða ekki í ábyrgð fyrir rekstrinum. Íbúðalánasjóður mun eiga veð í íbúðunum og eignast þær gangi rekstur leigufélagsins ekki.

Gunnar segir að á nýju ári hefjist viðræður við atvinnurekendur í Reykjanesbæ. „Við munum ræða við fyrirtækin um hvort þau sjái sér hag í því að koma til liðs við okkur,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×