Innlent

Þjófar tæmdu hárgreiðslustofu í Hafnarfirði í skjóli nætur

Birgir Olgeirsson skrifar
Mynd úr safni hárgreiðslustofunnar Hármóta í Hafnarfirði.
Mynd úr safni hárgreiðslustofunnar Hármóta í Hafnarfirði. Facebook/Hármót
Brotist var inn á hárgreiðslustofuna Hármót í Trönuhrauni í Hafnarfirði í nótt. Innbrotsþjófarnir höfðu á brott nánast allan lager stofunnar að sögn Hildigunnar Ernu Gísladóttur, annars af eigendum Hármóta.

„Það var allt tekið, skæri, blásarar, sléttujárn, krullujárn, rakvélar, allt saman,“ segir Hildigunnur sem metur tjónið á bilinu 500 til 700 þúsund krónur. Er lögreglan komin með málið til rannsóknar hjá sér en Hildigunnur segir engan liggja undir grun enn sem komið er.

Hún segir þetta vissulega hafa áhrif á reksturinn. „En við verðum bara að halda áfram. Það eru náttúrlega að koma jól.“

Hún segir þjófana hafa komist inn í húsnæðið með því að skrúfa rúðu úr glugga sem er baka til. „Þetta er nefnilega svo skrýtið. Þessi gluggi er algjörlega á bak við og þú sér hann ekkert úti á götu. Þú þarft að hafa fyrir þessu, klifra upp á tunnu eða gám til að komast að glugganum. Þeir dúlluðu sér síðan við að skrúfa rúðuna úr.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×