Innlent

Tapið gæti lýst upp 75.000 heimili

Svavar Hávarðsson skrifar
Uppbygging flutningskerfis raforku myndi bæta nýtingu.
Uppbygging flutningskerfis raforku myndi bæta nýtingu. vísir/vilhelm
Landsnet hefur samið við HS Orku, Landsvirkjun og Orku náttúrunnar um kaup á 347 gígavattstundum (GWst) af rafmagni til að mæta flutningstapi í raforkukerfinu árið 2016.

Það er um 90% þeirrar orku sem Landsnet áætlar að þurfi til að mæta flutningstöpum ársins.

Heildarkostnaður Landsnets vegna samninganna er tæplega 1,6 milljarðar króna.

Tilboð bárust frá þremur bjóðendum í opnu útboði; HS Orku, Landsvirkjun og Orku náttúrunnar.

Hækkunin er 18% milli ára en meðalverðið á kílóvattstund (kWst) í útboðinu nú var 4,48 krónur, samanborið við 3,8 krónur á kWst í útboðinu haustið 2014. Hlutfall tapa af afhentri raforku frá flutningskerfinu var 2,1% árið 2015, eða 361 GWst, og samsvarar það raforkunotkun um 75.000 heimila sem ekki eru rafhituð.

Áætlað er að hlutfall tapa á næsta ári verði um 2,2%.

Í tilkynningu frá Landsneti segir að töp í flutningskerfinu hafi farið vaxandi á undanförnum árum. Helsta ástæðan fyrir þeirri þróun sé að flutningur eftir byggðalínunni hefur verið í eða yfir flutningsmörkum.

„Styrking flutningskerfisins mun leiða til ábyrgari meðferðar orkunnar, betri orkunýtingar og þar með bæta orkumarkað. Styrkingin ætti einnig að minnka kolefnisspor Landsnets því flutningstöp valda töluverðri óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda hjá fyrirtækinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×