Innlent

„2015 metár“ í uppbyggingu nýrra íbúða

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. VÍSIR/STEFÁN
Árið 2015 verður metár í uppbyggingu nýrra íbúða, að sögn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Stefnt er á að byggja allt að sjö þúsund íbúðir á næstu árum. Horfur í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu verða kynntar í ráðhúsinu í dag og á morgun.

„Meginþunginn í uppbyggingunni er inn á við þar sem fólk getur valið sér búsetu án þess að þurfa að vera með tvo bíla og léttir þannig á heimilisbókhaldinu líka. Áhyggjurnar hafa verið meiri af því að það sé tafsamara, taki lengri tíma að byggja í anda þéttingu byggðar og að þessar lóðir séu ekki til. Það sem ég held að séu stóru tíðindin á fundinum á eftir er að við erum búin að skipuleggja, búin að taka í gegnum deiliskipulag lóðir á uppbyggingarreiti fyrir 3500 íbúðir í Reykjavík. Það er um 3500 til viðbótar í skipulagsferli," sagði Dagur í Bítinu á Bylgjunni.

„Byggingafulltrúi var að birta nýjar tölur fyrir okkur, sem hann tók saman í gær. Þær sýna að þetta er að stefna í metár 2015. Það eru um þúsund íbúðir að fara í gang. Það er bara metárið 1973 þegar það var verið að byggja Breiðholtið sem er stærra.“

Þá segir hann að reynt verði að halda fermetraverði í lágmarki.

„Við viljum byggja fyrir alls konar fólk með alls konar efni á stöðum sem annars myndu bara byggjast upp sem lúxusíbúðir," segir Dagur.

Málstofur verða haldnar í ráðhúsinu í dag og á morgun þar sem kynnt verða ýmis verkefni sem þegar eru í framkvæmd eða á döfinni. Þá verður fjallað um hugmyndir og tækifæri til að auka fjölbreytni í framboði íbúðarhúsnæðis og hvernig byggja megi á hagkvæmari hátt. Dagur ætlar að fara yfir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík.

Hlusta má á viðtalið við Dag í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×