Innlent

Samskipti eftir ofbeldi geta haft áhrif á ákæru

Snærós Sindradóttir skrifar
Helgi Magnús Gunnarsson
Helgi Magnús Gunnarsson
„Ég kyssti hann á munninn með bros á vör þegar ég kvaddi hann – með hnút í maganum og illt alls staðar.“ Svona lýsir kona hegðun sinni eftir nauðgun undir myllumerkinu #eftirkynferðisofbeldi í Facebook-hópnum Beautytips í gær.

Konan er ein hundraða kvenna sem hafa sagt frá viðbrögðum sínum skömmu eftir nauðgun sem svar við ummælum Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, verjanda í Hlíðanauðgunarmálinu, á vef Stundarinnar á fimmtudag. Þar lét hann hafa eftir sér: „Það er fráleitt að nokkur eigi svona broskalla- og gleðisamskipti við einhvern mann sem er nýbúinn að nauðga henni.“

Þær spurningar vöknuðu í samfélagsumræðu gærdagsins hvort hegðun eftir nauðgun gæti haft áhrif á ákæruferli eða sakfellingu fyrir dómi.

Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur
„Ef sönnun um brot er veik, þá styrkist hún ekki við það ef samskiptin á milli fólks eftir atvikin bera það ekki með sér að neitt hafi í skorist,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. „Hins vegar ef sönnun er sæmilega góð þá stoppar það ekki neitt. En þetta getur komið inn í heildarmat ef staðan er mjög veik sönnunarlega.“

Hann segir að öfugt við það sem margir haldi þá séu líkamlegir áverkar eftir kynferðisbrot ekki endilega algengir. Horfa þurfi heildstætt á myndina, en fyrst og fremst atvikið sjálft og aðdraganda þess.

Þá geti verjendur rakið samskipti þolanda og geranda af nákvæmni fyrir dómi. „Verjendur myndu náttúrulega reifa það að þetta hafi verið svona og að hún hafi ekki kært fyrr en eftir langan tíma. Það getur auðvitað verið bent á að það sé ekki venjan að fólk eigi í vinsamlegum samskiptum eftir nauðgun.“

Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni, segir þolendur spyrja sig að því hvers vegna þeir brugðust svona við brotinu. „Þetta verður hluti af skömm í kjölfar kynferðisbrots. Fólk á erfitt með að trúa því að það hafi orðið fyrir kynferðisbroti og spyr hvort það hafi boðið upp á þetta. Það eru dæmi um að þolendur sendi skilaboð eftir á um að brotið hafi verið allt í lagi.“

Þá verði að hafa í huga að í einhverjum tilfellum búi þolendur og gerendur saman. „Fólk heldur oft áfram að umgangast eftir svona brot, stundum er það óhjákvæmilegt en stundum vegna þess að fólk hefur eðlilega þörf fyrir að afneita því sem kom fyrir,“ segir Þóra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×