Innlent

Framlengd vegabréf falla úr gildi eftir viku

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Talið er að um þrjú þúsund manns hafi vegabréf með framlengingu sem nær fram yfir 24.nóvember.
Talið er að um þrjú þúsund manns hafi vegabréf með framlengingu sem nær fram yfir 24.nóvember. vísir/stefán
Innanríkisráðherra hefur skrifað undir breytingu á reglugerð um vegabréf sem er í því fólgin að felld verður niður heimild til framlengingar á vegabréfum sem runnið hafa út. Breytingin er til komin þar sem reglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO, krefjast þess að vegabréf þurfi að vera véllesanlegt til að teljast gilt ferðaskilríki.

Þjóðskrá Íslands sendi frá sér tilkynningu í október þess efnis að Alþjóðaflugmálastofnunin hefði gert þá kröfu að öll vegabréf yrðu véllesanleg. Reglurnar hafa nú verið undirritaðar og taka gildi eftir eina viku, eða 24. nóvember næstkomandi.  Á vef innanríkisráðuneytisins segir að krafa um að vegabréf skuli vera læsilegt sé ófrávíkjanleg frá og með þeim degi.

Ísland hefur til þessa nýtt undanþágu frá reglunni og framlengt vegabréf íslenskra ríkisborgara hafi þess verið óskað. Talið er að um þrjú þúsund manns hafi vegabréf með framlengingu sem nær fram yfir 24. nóvember. Þjóðskrá mun tilkynna handhöfum þeirra að vegabréfin teljist ekki fullgild ferðaskilríki eftir þann tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×