Innlent

Ferðalangar á framlengdum vegabréfum ekki í hættu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ferðalangar á framlengdum vegabréfum þurfa ekki að hafa áhyggjur því afgreiðsla vegabréfa tekur að mesta lagi tíu daga, um leið og sýslumannsembættin opna að nýju.
Ferðalangar á framlengdum vegabréfum þurfa ekki að hafa áhyggjur því afgreiðsla vegabréfa tekur að mesta lagi tíu daga, um leið og sýslumannsembættin opna að nýju. vísir/stefán
Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, segir að ef kjarasamningar náist í vikunni verði því ekkert til fyrirstöðu að gefa út ný vegabréf áður en nýjar reglur alþjóðaflugmálastofnunar taka gildi í nóvember. Reglurnar kveða á um að framlengd vegabréf falli úr gildi hinn 24. nóvember og að eftir þann tíma teljist þau ekki lengur gild ferðaskilríki.

„Við höfum hingað til haft heimild til að stimpla á útrunnin vegabréf, en það er ekki lengur hægt að reiða sig á þá. En ef verkfallið leysist í þessari viku þá er ekkert í hættu hvað varðar það að menn geti ekki fengið vegabréf fyrir 24.nóvember,“ segir Þórólfur.

Sjá einnig: Framlengd vegabréf falla úr gildi í nóvember

Þjóðskrá Íslands sendi frá sér tilkynningu í morgun þess efnis að eftir að reglurnar taka gildi verði ekki hægt að ábyrgjast hvernig litið verði á framlengd vegabréf við landamæraeftirlit erlendis.  Sýslumanni verður þó enn heimilt að framlengja vegabréf, en það verður á ábyrgð hvers og eins að ferðast með slík vegabréf.

Misvísandi ákvæði í reglugerðunum

„Íslensk reglugerð um vegabréf heimilar enn þá að vegabréf séu framlengd. Í rauninni má segja að það séu misvísandi ákvæði íslensku reglugerðarinnar um vegabréf og þessum reglum alþjóðaflugmálastofnunarinnar,“ útskýrir Þórólfur.

Aðspurður hvort ekki sæti furðu að reglur sem þessar séu settar með einungis mánaðarfyrirvara  segir hann að því þurfi stjórnvöld að svara. „Þetta eru alþjóðlegar reglur, en það má kannski segja að stjórnvöld hafi ekki brugðist tímanlega við, alveg óháð þessu verkfalli sem er í gangi núna,“ segir hann.

Tíu daga tekur að fá nýtt vegabréf en hægt er að óska eftir hraðafgreiðslu, sem þó kostar töluvert meira. Almenn afgreiðsla á vegabréfum fyrir 18-66 ára kostar 10.250 krónur og hraðafgreiðsla kostar 20.250 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×