Innlent

Staðráðnir í að reyna að ná skipinu á flot í kvöld

Kristján Már Unnarsson skrifar
Starfsmenn Björgunar ætla að reyna til þrautar í kvöld að ná sanddæluskipinu Perlu upp af botni Reykjavíkurhafnar og gera sér enn vonir um að ná því á flot fyrir miðnætti.

Menn voru mættir á Ægisgarð um fimmleytið í morgun. Kafarar voru á stöðugum þeytingi að stilla dælur af og þétta göt og á níunda tímanum voru dælurnar ræstar. Sjónum er dælt upp um sérstaka stálstokka en þannig vonast menn til að nægilegt loftrými skapist inni í skipinu til að það fljóti upp.

Og allt virðist ganga vel fram eftir morgni, - afturhluti skipsins lyftist það vel að stýrihúsið var nánast allt komið upp úr. En sama gerðist ekki með framstefnið, það haggaðist varla af botninum. Og eftir því sem afturhlutinn reis hærra tók skipið að hallast ískyggilega og brugðu menn á það ráð að láta trukk á bryggjunni toga á móti og einbeita sér að því að dæla upp úr framhlutanum.

En allt kom fyrir ekki, framendinn vildi ekki upp, og eftir að slökkt var dælunum sökk stýrihúsið hratt aftur, eins og sást vel í frétt Stöðvar 2 í kvöld þegar myndaskeiði var hraðað.

Aðgerðir eru háðar sjávarföllum, háflóð var klukkan þrjú, sem þótti óheppilegt, og því var mannskapurinn sendur heim til hvíldar eftir hádegi og ákveðið að mæta aftur til starfa nú klukkan sex en lágsjávað verður klukkan hálftíu í kvöld. Meiningin er að dælurnar verði komnar í gang um sjöleytið. Menn eru staðráðnir í að ná skipinu upp í kvöld og þá helst fyrir miðnætti. Ef það tekst ekki telja menn að hugsa verði upp einhverja aðra leið til að ná því á flot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×