Innlent

Þrettán milljónir króna renna til hjálparstarfs á Grikklandi

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Rúmlega sex hundruð þúsund flóttamenn hafa flúið til Grikklands á árinu.
Rúmlega sex hundruð þúsund flóttamenn hafa flúið til Grikklands á árinu. Mynd/Rauði krossinn
Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að veita 13 milljónir króna til að fjármagna áríðandi hjálparaðgerðir vegna neyðarástands á Grikklandi og svara með því kalli Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

Hjálparaðgerðirnar fela meðal annars í sér heilbrigðis- og mataraðstoð, dreifingu hreinlætispakka og aðstoð við að koma flóttafólki í samband við ættingja og ástvini.

Um 600 þúsund hafa flúið til Grikklands á árinu og hefur straumurinn aukist sérstaklega síðustu þrjá mánuði. Þannig hafa yfir 300 þúsund manns komið til eyjunnar Lesbos, þar af um þriðjungur í október síðastliðnum, en eyjan er aðeins um tveir ferkílómetrar að stærð.

Starfsfólk og sjálfboðaliðar gríska Rauða krossins hafa undanfarna mánuði komið hjálpargögnum til þeirra sem á þeim þurfa að halda en sökum gríðarlegs álags undanfarna mánuði er fjárhagslegt bolmagn gríska Rauða krossins takmarkað og þarfnast hann því fjárhags­aðstoðar frá öðrum landsfélögum.

Rauði krossinn á Íslandi sendi á dögunum, í fyrsta sinn á þessari öld, sendifulltrúa á vettvang til lands innan Evrópu þegar Páll Biering, dósent í geðhjúkrunarfræði, hélt til flóttamannabúða norska Rauða krossins við landamæri Makedóníu.

Auk þess að sinna þar sálfélagslegum stuðningi flóttafólks starfar hann við að þjálfa gríska sjálfboðaliða til þess að veita slíkan stuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×