Innlent

Þriggja mánaða skilorð fyrir að bíta barnsmóður sína

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fyrir dómi viðurkenndi maðurinn að hafa bitið barnsmóður sína, eins og greint var frá í ákæru, en hann beit hana í kinnina, handlegginn og bakið.
Fyrir dómi viðurkenndi maðurinn að hafa bitið barnsmóður sína, eins og greint var frá í ákæru, en hann beit hana í kinnina, handlegginn og bakið. vísir/getty
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás á hendur barnsmóður sinni sem átti sér stað á heimili þeirra í janúar síðastliðnum.

Maðurinn var ákærður fyrir að bíta konuna og kýla hana með krepptum hnefa í andlitið. Fyrir dómi viðurkenndi hann að hafa bitið barnsmóður sína, eins og greint var frá í ákæru, en hann beit hana í kinnina, handlegginn og bakið.

Hann neitaði hins vegar að hafa kýlt konuna og var hann sýknaður af þeim lið ákærunnar þar sem hvorki áverkavottorð né ljósmyndir staðfestu slíkt högg, eins og segir í dómi héraðsdóms.

Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi sagt að hann hafi verið í neyðarvörn þar sem barnsmóðir hans hafi átt upptökin að átökunum. Konan viðurkenndi fyrir dómi „að hafa rekið hönd í andlit ákærða og hafi hún beðist fyrirgefningar á því, en atvikið hafi leitt til þess að hann hafi ráðist á hana.”

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að maðurinn sé „stæðilegur“ en konan „til muna minni.“ Það réttlæti ekki ofbeldisfull viðbrögð mannsins þó að konan hafi rekið höndina í andlit hans.

„Ljósmyndir sem teknar voru af áverkum brotaþola þessa nótt sýna að ákærði hefur bitið brotaþola fast. Framferði hans getur á engan hátt helgast af neyðarvörn, svo sem atvikum er háttað. Eins og átökin þróuðust þá verður ekki talið að brotaþoli hafi átt upptök að þeim, svo sem ákærði heldur fram. Voru viðbrögð ákærða langt umfram tilefni.“

Dóm héraðsdóms má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×