Innlent

Er hugsi yfir styrkjum borgarinnar til Fjölskylduhjálpar Íslands

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Segist ekki sjá hvernig ummæli stjórnarmanna í Fjölskylduhjálp Íslands um útlendinga samrýmist mannréttindastefnu borgarinnar.
Segist ekki sjá hvernig ummæli stjórnarmanna í Fjölskylduhjálp Íslands um útlendinga samrýmist mannréttindastefnu borgarinnar.
Fulltrúi Samfylkingarinnar í velferðarráði og mannréttindaráði borgarinnar er efins um að Reykjavíkurborg eigi að styrkja Fjölskylduhjálp Íslands í ljósi ummæla stjórnarmanna í samtökunum um útlendinga. Magnús Már Guðmundsson segir að málið blasi þannig við sér að viðhorf stjórnarmannanna samræmist ekki starfinu.

Ummæli á Útvarpi sögu tilefnið

Tilefnið eru ummæli sem stjórnarmenn í Fjölskylduhjálpinni hafa látið falla á netinu og í símatíma á Útvarpi sögu, sem Stundin hefur fjallað um, um útlendinga og þá sérstaklega Tony Omos, sem flestir muna eftir í tengslum við Lekamálið.

„Ég sé ekki hvernig þetta samrýmist mannréttindastefnu borgarinnar, sem er höfð til hliðsjónar þegar verið er að taka hliðsjónar um styrki í öllum ráðum borgarinnar,“ segir hann. „Þetta þarf að skoða og það er hópur úr ráðinu ásamt sviðsstjóra, Stefáni Eiríkssyni, sem fara yfir umsóknirnar og gera tillögur til ráðsins.“

En byggir það á þessum skoðunum sem er verið að viðra eða eru einhver dæmi um að þau hafi mismunað eftir þjóðerni? 

„Ég þekki ekki slík dæmi og hef ekki heyrt af því annað en það sem maður hefur lesið í fjölmiðlum,“ segir hann og vísar til dæmis í fréttir Fréttablaðsins og Vísis frá árinu 2010 þar sem sagt var frá því að Fjölskylduhjálpin hafi beint fólki í tvær biðraðir við matarúthlutun; annars vegar fyrir útlendinga og hins vegar fyrir Íslendinga, sem gengu fyrir.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands.
Umsókn til meðferðar

Borgin hefur nú til meðferðar umsókn frá félaginu um áframhaldandi styrki. Frestur til að sækja um styrki rann út 1. Október síðastliðinn og er nú unnið að því að fara yfir allar þær umsóknir sem bárust til borgarinnar. 

„Ég veit að Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem er að styrkja samtökin um fjárhæðir. Þetta eru auðvitað ekki stórar fjárhæðir í útgjöldum borgarinnar, sem eru tugir milljarða, en þetta er hluti af styrkjapotti velferðarsviðs sem velferðarráð tekur ákvörðun um,“ segir Magnús. Borgin hefur verið að styrkja félagið um á bilinu eina til tvær milljónir króna.

„Það verður að vera á hreinu að það sé ekki verið að mismuna eða koma fram við fólk með einhverjum öðrum hætti, hvort sem fólki er mismunað eftir litarhætti, uppruna eða þjóðerni,“ segir Magnús Már.

 „Það er ekkert ólíklegt að við munum hitta fulltrúa frá fjölskylduhjálp Íslands, en ég veit ekki hvernig þau sem munu fara yfir umsóknirnar muni tækla þetta, en eins og þetta blasir við mér, þá fer þetta ekki saman.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×