Innlent

Einn Íslendingur handtekinn en ekki þrír

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Um 6.000 marijúanaplöntur voru í ræktun í húsinu.
Um 6.000 marijúanaplöntur voru í ræktun í húsinu. MYND/GUARDIA CIVIL
Svo virðist sem aðeins einn Íslendingur hafi verið handtekinn í aðgerðum lögreglu í tengslum við umfangsmikla kannabisræktun í bænum Molina de Segura á Suðaustur-Spáni. Var hann einn þriggja sem voru fyrstir handteknir í janúar vegna málsins. Þetta kemur fram í svari Héraðsómsins í Murcia til Vísis í dag.

Fyrstu fregnir spænskra miðla, sem íslenskir miðlar unnu upp úr, gáfu til kynna að einn Íslendingur væri höfuðpaurinn en auk hans hefðu tveir Íslendingar til viðbótar verið handteknir. Þá kom fram að fjórði maður hefði verið handtekinn á leið til Íslands en ekki var greint frá þjóðerni hans. Miðað við svar héraðsdóms í dag virðist aðeins einn Íslendingur grunaður um refsiverða háttsemi. 

Íslendingurinn og hinir tveir handteknu voru settir í farbann og vegabréfið tekið af þeim. Var Íslendingnum í kjölfarið sleppt á meðan rannsókn málsins stendur yfir. Mennirnir þrír eru grunaðir um fíkniefnaframleiðslu og smygl auk stuldar á rafmagni. Fimm til viðbótar voru handteknir vegna málsins en þeir eru allir Hollendingar. Handtökurnar voru í janúar og febrúar en ekki var greint frá málinu ytra fyrr en í þessum mánuði.

Samkvæmt fyrri fréttum í spænskum miðlum hófst rannsókn lögreglu eftir að tilkynnt var um einkennileg frávik í rafmagnslínum í iðnaðarhverfi Molina de Segura. Við nánari skoðun kom í ljós að rafmagni var veitt í stóra vöruskemmu sem borgaði enga rafmagnsreikninga. Í skemmunni fundust um sex þúsund kannabisplöntur.

Utanríkisráðuneytið hafði ekki heyrt af málinu þegar fréttastofa hafði samband við ráðuneytið í síðustu vikku.



Tengdar fréttir

Íslendingar gripnir í fíkniefnarassíu á Spáni

Lögregla á Spáni handtók ellefu manns í tengslum við umfangsmikla kannabisræktun í bænum Molina de Segura. Hollendingar og Íslendingar stóðu að ræktuninni. Mánaðarlegt söluandvirði er sagt nema um 30 milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×