Fimmtán til tuttugu prósent barna á Íslandi glíma við geðrænan vanda og tíu prósent íslenskra barna eru á einhverskonar geðlyfjum. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir að þjónustu og úrræði vanti fyrir þennan hóp, og að það enduspeglist í alvarlegri vandamálum síðar meir. Taka þurfi á vandanum.
Undanfarna daga hefur orðið mikil vitundarvakning í málefnum geðfatlaðra á Íslandi. Geðhjálp stóð fyrir átakinu Útmeða til að vekja athygli á sjálfsvígum ungra karlamanna, og í kjölfarið skapaðist mikil umræða á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #égerekkitabú. Margir vilja takast á við vandann en Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir geðheilbrigðiskerfið ekki geta tekið við nema þeim allra veikustu.
Fæstir foreldrar hafa efni á því
„Og þá horfum við til barnanna, þau eru vanrækt. 15-20 prósent íslenskra barna eiga við geðræna erfiðleika að stríða. Það er mjög erfitt aðgengi í gegnum skólana og í gegnum heilsugæsluna líka, sem ættu auðvitað að vera þeir staðir sem foreldrar gætu leitað til. Þannig að margir foreldrar standa frammi fyrir því að þurfa að borga 13-15 þúsund krónur fyrir að senda barnið sitt til sálfræðings. Það segir sig sjálft að fæstir foreldrar hafa efni á því,“ segir Anna Gunnhildur.
Árangursríkast sé að hjálpa börnunum strax. Það er aftur á móti ekki hægt eins og staðan er í dag þar sem aðgengi að sálfræðingum í gegnum skóla og heilsugæslu sé lélegt.
„Þetta auðvitað eykur hættuna á því að það sé verið að ávísa lyfjum á börn. Þannig er verið að reyna að hamla gegn áhrifum en ekki rót vandans. Við sjáum það að 10 prósent barna á Íslandi eru á geðlyfjum og það er mjög slæmt,“ segir Anna Gunnhildur.
Dýrt fyrir samfélagið
Bráðavandinn aukist þannig hratt. 120 börn eru á biðlista til að komast inn á BUGL, þar sem meðalbið er 9 mánuðir. Afleiðingar biðarinnar eru margvíslegar, til að mynda er brottfall barna úr framhaldsskólum í 12 prósent tilvika tengt geðrænum vanda.
„Það þarf að ráða sálfræðinga til skólanna svo það sé gott aðgengi á aðstoð í gegnum skóla. Ég held að sá peningur sem við leggjum í það, að hann margfaldist, af því að þessi flókna annars og þriðja stigs þjónusta er mjög dýr fyrir samfélagið. Fyrir utan hvað það er mikill mannlegur harmleikur.“
