Innlent

Segist aldrei hafa gefið grænt ljós á 250 þúsund króna bakvaktagreiðslur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eyþór Arnalds er fyrrverandi formaður stjórnar Brunavarna Árnessýslu, nú fagráðs Brunavarna Árnessýslu. Hann hætti um áramótin 2012 til 2013 eða á sama tíma og rekstrarformi og nafni var breytt.
Eyþór Arnalds er fyrrverandi formaður stjórnar Brunavarna Árnessýslu, nú fagráðs Brunavarna Árnessýslu. Hann hætti um áramótin 2012 til 2013 eða á sama tíma og rekstrarformi og nafni var breytt. Vísir/GVA
Eyþór Arnalds, fyrrverandi formaður stjórnar Brunavarna Árnessýslu, þvertekur fyrir að hafa gefið grænt ljós á að Kristján Einarsson slökkviliðsstjóri og varaslökkviliðstjóri, hægri hönd Kristjáns, fengi greiddar 250 þúsund krónur á mánuði sem bakvaktagreiðslur. Kristjáni var sagt upp störfum eftir 22 ár í starfi í gær.

Eyþór hætti sem formaður stjórnar í árslok 2012 en um það leyti var rekstrarforminu breytt og ný stjórn mynduð sem nú heitir Fagráð Brunavarna Árnessýslu.

„Þetta kemur mjög á óvart,“ segir Eyþór um frásögn Kristjáns í fyrri frétt Vísis í dag. Þar fullyrti Kristján að Eyþór hefði gefið grænt ljós á bakvaktagreiðslur á meðan hann gegndi formennsku.

„Allar launagreiðslur voru ræddar og samþykktar í stjórn enda er um sameiginlega ákvörðun að ræða. Það er enginn einn sem tekur slíkur ákvarðanir,“ segir Eyþór.

Ari Björn Thorarensen, formaður fagráðs Brunavarna Árnessýslu.
Ekkert rætt umfram það sem samþykkt var í stjórn

Ari Björn Thorarensen, formaður fagráðsins, sagði við Vísi fyrr í dag að upp hefði komist um ósamþykktu bakvaktagreiðslurnar í vor. Greiðslurnar hefðu hafist í maí 2014 og slökkviliðsstjóra og aðstoðarmanni greidd auka 250 þúsund krónur afturvikt frá áramótum.

Aðspurður hvort Eyþór hafi gefið Kristjáni vilyrði fyrir umræddum bakvaktagreiðslum segir Eyþór það af og frá. Bendir hann á að greiðslurnar hefjist ári eftir að hann láti af stjórn og rekstrarformi breytt.

„Það er alveg á hreinu að öll laun voru rædd í stjórn og samþykkt og ekkert umfram það.“

Launagreiðslurnar hafa ekki verið tilkynntar til lögreglu. Ari telur að Kristján muni höfða mál vegna þess sem slökkviliðsstjórinn telur vera ólögmæta uppsögn. Það sé það ferli sem málið muni að líkindum fara í. Kristján er kominn með lögmann í málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×