Enski boltinn

Sherwood vildi ekki leyfa stráknum að æfa með enska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Grealish.
Jack Grealish. Vísir/Getty
Roy Hodgson, þjálfari enska karlalandsliðsins í fótbolta, valdi ekki hinn unga Jack Grealish í lið sitt fyrir síðustu leikina í undankeppni EM 2016 en sóttist samt eftir því að Grealish fengi að kynnast því að æfa með liðinu í komandi landsleikjahléi.

Það varð þó ekkert að því að þessi tvítugi strákur fengi að kynnast því nánar hvernig málunum er háttað hjá enska landsliðinu. Ástæðan er sú að Tim Sherwood, knattspyrnustjóri Aston Villa, bannaði Jack Grealish að æfa með enska landsliðinu.

„Við vildum fá hann til að koma og kynnast háttum enska landsliðsins. Tim gerði okkur ljóst að það væri ekki góð hugmynd því að strákurinn væri enn að komast í almennilegt form eftir að hafa misst af undirbúningstímabilinu," sagði Roy Hodgson við BBC Sport.

Jack Grealish spilaði frábærlega á móti Liverpool í undanúrslitaleik enska bikarsins síðasta vor og þá skoraði hann sitt fyrsta úrvalsdeildarmark á dögunum en það kom á móti Leicester City.

Roy Hodgson sagðist ekki gera neina athugasemd við sjónarmið Tim Sherwood en ákvað samt að segja frá málinu í viðtölum við fjölmiðla.

Jack Grealish er fæddur árið 1995 en hann spilar sem vængmaður eða framliggjandi miðjumaður. Grealish er nýbúinn að ákveða það að spila með enska landsliðinu en hann hefur spilað fyrir yngri landslið Íra.

Grealish er fæddur í Birmingham en amma og afi hans voru frá Írlandi. „Enska knattspyrnusambandið vildi fá hann til að koma og sýna honum að allir hér væru ánægðir með að hann valdi England. Við fáum oft unga leikmenn hingað til að æfa með landsliðinu," sagði Roy Hodgson.

„Nú þarf hann bara að standa sig með Aston Villa og vinna sér sæti í landsliðinu. Vonandi getum við síðan valið hann þegar liðið kemur saman í nóvember," sagði Roy Hodgson.

Enska landsliðið hefur eins og Ísland þegar tryggt sér sæti á Evrópumótinu í Frakklandi á næsta ári. Síðustu leikir liðsins í undankeppninni eru á móti Eistlandi og Litháen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×