Fótbolti

Eiður Aron, Hjörtur Logi og félagar unnu fimmta leikinn í röð | Úrslit dagsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Eiður Aron í leik með ÍBV á Íslandi.
Eiður Aron í leik með ÍBV á Íslandi. Vísir/stefán
Eiður Aron Sigurbjörnsson, Hjörtur Logi Valgarðsson og félagar í Örebro virðast ætla að bjarga sér fyrir horn í sænsku úrvalsdeildinni en félagið vann fimmta leik sinn í röð í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Örebro sem var í fallsæti fyrir stuttu síðan vann í dag 2-1 sigur á Kalmar og skaust með sigrinum upp fyrir Kalmar í töflunni. Eiður og Hjörtur léku báðir allar nítíu mínútur leiksins og stóðu vakt sína í vörninni vel.

Örebro er eftir leikinn með 29 stig þegar fjórar umferðir eru eftir, átta stigum fyrir ofan Falkenberg í fallsæti en uppgangur Örebro undanfarnar vikur hefur verið ótrúlegur. Hefur liðið nælt í sextán stig af átján mögulegum í síðustu sex leikjum.

Hjálmar Jónsson og félagar í Göteborg unnu nauman 3-2 sigur á Sundsvall á heimavelli í dag en eftir sigur Norrköping í gær mátti Göteborg ekki við því að tapa stigum í titilbaráttunni.

Sigurmark Göteborg kom á 80. mínútu en Hjálmar lék allar nítíu mínútur leiksins í vinstri bakverði gegn Jón Guðna Fjólusyni og félögum í Sundsvall.

Það gengur ekkert hjá Arnóri Smárasyni og félögum í Helsingborg en liðinu tókst loksins að stöðva taphrinuna í dag með því að næla í eitt stig gegn Djurgården á útivelli. Fram að því hafði Helsingborg tapað sex leikjum í röð.

Úrslit dagsins:

Elfsborg 3-1 Åtvidaberg

Djurgården 2-2 Helsingborg

Örebro 2-1 Kalmar

IFK Göteborg 3-2 GIF Sundsvall




Fleiri fréttir

Sjá meira


×