Körfubolti

Jakob: Erum bæði svekktir og sáttir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jakob skoraði fimm stig í kvöld.
Jakob skoraði fimm stig í kvöld. vísir/valli
„Við vorum svakalega góðir í fyrri hálfleik fannst mér. Ég held að það hafi enginn búist við því að við yrðum fimm stigum undir í fyrri hálfleik gegn Spánverjum,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson eftir 26 stiga tap Íslands fyrir Spáni á Evrópumótinu í körfubolta í kvöld.

„Við erum bæði svekktir og sáttir en ég var rosalega ánægður með fyrri hálfleikinn,“ bætti Jakob við en hann skoraði fimm stig í kvöld á rúmum 22 mínútum. Hann segir að þreytan hafi sagt til sín í seinni hálfleiknum þar sem Spánverjar voru með öll völd á vellinum.

„Þeir eru með meiri breidd og allir tólf leikmennirnir hjá þeim eru mjög góðir. Eðlilega dregur meira af okkur en þeim þar sem við erum að spila á færri mönnum,“ sagði Jakob.

Íslenska liðið mætir Tyrklandi á morgun í síðasta leik sínum í B-riðli og stefna strákarnir á sigur í þeim leik.

„Þetta er síðasti séns á að vinna leik í þessum riðli. Við ætlum að gefa allt í þennan leik og ef við spilum eins og við gerðum í fyrri hálfleik í dag held ég að við séum í góðum málum,“ sagði Jakob sem hefur ekki áhyggjur af því að félagar hans í landsliðinu sem eru samningslausir eigi í vandræðum með að finna sér lið fyrir veturinn.

„Það efast ég um, þeir eru að spila svakalega vel og ég trúi ekki öðru en að menn séu að fylgjast með þeim og þeir verði eftirsóttir eftir mótið,“ sagði Jakob sem er sjálfur samningsbundinn Borås Basket í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×