Innlent

Veittist að manni með riffli: „Eitthvert stundarbrjálæði bara“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Á einhverjum tímapunkti kemur upp svona einhver ... skelfileg hræðslutilfinning hjá mér og mig minnir einhvern veginn en þetta er svona í minningunni og að ég þurfi að verja mig.“
"Á einhverjum tímapunkti kemur upp svona einhver ... skelfileg hræðslutilfinning hjá mér og mig minnir einhvern veginn en þetta er svona í minningunni og að ég þurfi að verja mig.“ vísir/gva
Hæstiréttur hefur ómerkt sýknudóm Héraðsdóms Suðurlands yfir sjötugum karlmanni sem ákærður var fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í sumarhúsi í Grímsnesi árið 2012. Maðurinn var sakaður um að hafa slegið annan mann ítrekað með riffli, meðal annars í höfuðið. Taldi dómurinn að héraðsdómur hefði ekki fellt dóm á málið með tilliti til allra gagna og að líkur væru á að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi væri röng svo að máli skipti um málaúrslit.

Fannst hann þurfa að verja sig

Forsaga málsins er sú að mennirnir tveir sátu að sumbli í sumarhúsi ákærða í desember 2012. Báðir voru þeir töluvert ölvaðir umrætt kvöld en hvorugur man hvers vegna til átakanna kom. Þeim bar þó báðum saman um það að þeir hefðu farið í „sjómann“ um kvöldið. Ákærði bar fyrir sig minnisleysi en kvaðst, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, muna eftir að hafa fundið fyrir hræðslutilfinningu og hafa þurft að verja sig. Hann sagðist þó ekki geta gert grein fyrir tilefni hennar eða á hvaða tímapunkti sú tilfinning hafi gripið hann.

Skelfileg hræðslutilfinning

„Á einhverjum tímapunkti kemur upp svona einhver ... skelfileg hræðslutilfinning hjá mér og mig minnir einhvern veginn en þetta er svona í minningunni og að ég þurfi að verja mig en ég man ekki eftir að hann gæfi mér nokkuð tilefni til þess. Eins og ég segi ég man bara alveg ákaflega lítið eftir þessu, eitthvert stundarbrjálæði bara ... sem að heltekur mig þarna og man ekki atburðarásina því miður,“ sagði maðurinn fyrir dómi. Hann játaði verknaðinn því hvorki né neitaði en sagðist telja líkur á að hann hefði verið valdur að umræddum verknaði, þó svo hann muni það ekki.

Maðurinn sem fyrir árásinni varð kjálkabrotnaði, hlaut mar víðs vegar um líkamann og þurfti að undirgangast aðgerð. Hann fór fram á rúmar tvær milljónir króna í bætur en var þeirri kröfu vísað frá í héraði.

Árásarmaðurinn var sem fyrr segir sýknaður í héraði en dómurinn taldi að ákæruvaldið hefði ekki axlað sönnunarbyrði og að fullgild sönnun hefði ekki verið færð fram í málinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×