Körfubolti

Spánn fyrsta liðið í undanúrslit

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pau Gasol fór fyrir sínum mönnum.
Pau Gasol fór fyrir sínum mönnum. vísir/getty
Spánn varð nú rétt í þessu fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumóts karla í körfubolta, en útsláttarkeppnin stendur yfir í Lille í Frakklandi. Spánn vann Grikkland, 73-71, í átta liða úrslitum.

Spánn var sjö stigum yfir í hálfleik, 39-32, en Grikkirnir komu sterkir til baka í seinni hálfleik og unnu þriðja leikhlutann með níu stigum, 25-16.

Grikkland var því með tveggja stiga forystu fyrir síðasta fjórðunginn en þar reyndust Spánverjarnir sterkari og héldu Grikkjum í fjórtán stigum.

Spennan var mikil undir lokin, en eftir að Pau Gasol kom Spáni í 70-65 af vítalínunni skoruðu Grikkirnir þriggja stiga körfu og minnkuðu muninn í tvö stig, 70-68.

Grikkland braut strax í næstu sókn og sendi Sergio Rodriguez á vítalínuna. Hann klikkaði ekki og kom Spáni í fjögurra stiga forystu, 72-68.

Grikkland beið ekki boðanna og negldi niður öðrum þristi, en þar var að verki Kostas Sloukas. Staðan 72-71 þegar fjórar sekúndur voru eftir.

Pau Gasol, leikmaður Chicago Bulls, var bestur allra á vellinum, en hann skoraði 27 stig, tók níu fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Hann kláraði svo leikinn á vítalínunni, 73-71.

Seinni leikur kvöldsins er viðureign Evrópumeistara Frakklands og Lettlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×