Körfubolti

Annar sigur Íslands í Eistlandi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hörður Axel var stigahæstur í íslenska liðinu.
Hörður Axel var stigahæstur í íslenska liðinu. vísir/daníel
Ísland vann tíu stiga sigur, 86-76, á Filipseyjum á æfingarmóti í Eistlandi í dag, en þetta var annar sigur Íslands af þremur á mótinu. Ísland tapaði einungis fyrir heimamönnum á mótinu og lenda að öllum líkindum í öðru sæti á mótinu.

Ísland byrjaði vel og leiddi með sex stigum eftir fyrsta leikhlutann, 22-16. Í öðrum leikhlutanum var svipað uppá teningnum. Ísland hélt góðri forystu og komst mest fimmtán stigum yfir, 46-31, en staðan í hálfleik var 46-38 Íslandi í vil.

Í þriðja leikhluta voru Filipseyingar sterkari. Þeir söxuðu hægt og rólega á forskot Íslands og komust meðal annars yfir 49-48 þegar þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta.

Íslenska liðið átti í vandræðum, en náði þó góðum sprett og leiddi eftir þriðja leikhlutann með sex stigum, 62-56. Í fjórða leikhlutanum reyndist þetta formsatriði fyrir Ísland sem vann að lokum tíu stiga sigur, 86-76.

Hörður Axel Vilhjálmsson var stigahæstur með nítján stig í íslenska liðinu, en næstir komu Martin Hermansson með fimmtán og Helgi Magnússon með ellefu. Logi Gunnarsson gerði tíu, Jakob Sigurðarson níu, Brynjar Þór Björnsson átta, Pavel Ermolinskij sex sem og Hlynur Bæringsson og Ægir Steinarsson skoraði tvö stig.

Andray Blatch var stigahæstur hjá Filipseyingum með 22 stig, en næstur kom Terrence Romeo með ellefu stig.

Holland og Eistland spila síðar í dag og þá kemur í ljós í hvaða sæti Ísland lendir í á mótinu. Mótið er liður í undirbúningi Íslands fyrir Eurobasket, en riðill Íslands fer fram í Berlín í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×