Körfubolti

Hörður Axel genginn til liðs við Trikala BC

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Hörður Axel á æfingu með íslenska landsliðinu.
Hörður Axel á æfingu með íslenska landsliðinu. Vísir/Daníel
Hörður Axel Vilhjálmsson, körfuknattleiksmaður, skrifaði í dag undir hjá Trikala BC í grísku deildinni. Hörður var án samnings eftir að hafa leikið í eitt tímabil með Mitteldeutscher BC í Þýskalandi.

Hörður sem hefur leikið undanfarið ár með Mitteldeutscher í þýsku úrvalsdeildinni hefur einnig leikið á Spáni á ferlinum en hann leikur í Grikklandi í fyrsta sinn á ferlinum í haust.

Hörður skrifaði undir til eins árs en hann staðfesti í samtali við Vísi rétt í þessu að hann hefði verið í viðræðum við nokkur lið í Þýskalandi og Grikklandi áður en hann skrifaði undir hjá Trikala.

Hörður er þessa dagana með íslenska landsliðinu í æfingarbúðum fyrir Eurobasket en hann sagði að gengið hefði verið frá málinu fyrir tveimur vikum og þetta hefði því ekki truflað undirbúninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×