Innlent

Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands telur tímabundinn kynjakvóta geta orðið til góðs

Birgir Olgeirsson skrifar
Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
„Þetta er auðvitað vandmeðfarið og yrði að vera mjög tímabundin aðgerð ef að yrði farið í þetta,“ segir Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, um þær hugmyndir sem hafa verið til umræðu upp á síðkastið að setja á kynjakvóta þegar kemur að úthlutunum úr kvikmyndasjóði til að auka hlut kvenna í kvikmyndagerð.

Leikstjórinn Baltasar Kormákur Samper varpaði þessari hugmynd fram í viðtali við Fréttablaðið fyrir skömmu og tók Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, vel í hana. Leikstjórinn Dagur Kári Pétursson steig fram á ritvöllinn í gærkvöldi með því að birta færslu á Facebook þar sem hann sagði kynjakvóta vera niðurlægjandi fyrir konur sem séu fullfærar að sýna það í verki að þær eru að öllu leyti jafn hæfir kvikmyndagerðarmenn og karlar.

Kvikmyndasjóður er samkeppnissjóður

Meðal helstu verkefna Kvikmyndamiðstöðvar er að styrkja framleiðslu íslenskra kvikmynda, vinna að kynningu og dreifingu þeirra. Kvikmyndasjóður starfar á vegum Kvikmyndamiðstöðvarinnar en hann veitir styrki til handritsgerðar, þróunar verkefna og framleiðslu. Sérstakir kvikmyndaráðgjafar fara yfir og meta umsóknir í kvikmyndasjóð en svo er það í höndum Laufeyjar Guðjónsdóttur, forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvarinnar, að taka endanlega ákvörðun um veitingu fjárstuðnings í samræmi við skilyrði þeirrar reglugerðar sem liggur til grundvallar slíkum úthlutunum.

Kvikmyndasjóður er samkeppnissjóður sem ber skylda til að velja bestu verkefnin hverju sinni og segir Laufey að breyta þyrfti hlutverki sjóðsins, sem starfar samkvæmt kvikmyndalögum, ef setja ætti kynjakvóta á úthlutanir hans til kvikmyndagerðar. Hún segir að kynjakvóti gæti hrist upp í þessu kerfi og virkað sem hvatning á konur að leggja fyrir sig kvikmyndagerð.

„Róttæk aðgerð“

„Þetta er svolítið róttæk aðgerð en það sem háir okkur líka líka er að konur hafa farið síður í þetta nám sem leikstjórar en það er samt að lagast núna síðustu árin og jafnast. Við höfum fengið langt um færri umsóknir frá konum en körlum en við höfum reynt að skala þær upp. Hins vegar gæti kynjakvóti tímabundið hrist svolítið upp í þessu,“ segir Laufey.

Eitt verkfæri

Hún telur tímabundinn kynjakvóta einnig geta hrist upp í bransanum þar sem horft yrði meira til kvenna þegar kemur að því að ráða inn í stöður. Kynjakvóti á úthlutanir úr kvikmyndasjóði yrði þó aðeins eitt verkfæri til að auka hlut kvenna í kvikmyndum að hennar mati. Hún nefnir að í framhaldsskólum séu strákar yfirgnæfandi meirihluti í kvikmyndaklúbbum spyr sig hvort að það þurfi að koma meiri hvatning til stúlkna þegar kemur að því að sækja nám í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi.

„Ég held að kynjakvóti sé ekkert eina lausnin.“

Konur ekki áberandi sögupersónur

Hún segir heilmikla aukningu hafa átt sér stað undanfarin ár þegar kemur að hlut kvenna í heimildarmyndum og stuttmyndum og segir konur einnig gert afbragðshluti í handritsgerð. Ekki þurfi aðeins að horfa til þess að fjölga konum í leikstjórastöðum heldur einnig að gæta að því að öll sjónarmið sjáist og heyrist.

„Við erum ekki bara að tala um kvenleikstjóra heldur einnig sögur þar sem sjónarhornið ekki bara karlmannsins þó svo að það væri bara konu leikstjóri. Við sjáum að konur eru ekkert áberandi sem sögupersónur. Þetta er ekki bara kynin.“

Hún segist fagna því að Baltasar Kormákur hafi varpað þessu fram því auðvitað þurfi að hrista upp í kerfinu til að ná fram breytingu. „Þetta er vissulega eitthvað sem þarf að taka á en þetta er líka eins og  í myndlistarheiminum og mörgum listum, og öllu samfélaginu.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.