Lífið

Miðasala á Þjóðhátíð gengur vel

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Þjóðhátíð í Eyjum í fyrra.
Frá Þjóðhátíð í Eyjum í fyrra. Vísir/Óskar P. Friðriksson
Aðeins eru laus sæti með Herjólfi í tveimur ferðum til Eyja föstudaginn 31. júlí þegar múgur og margmenni mun streyma á Heimaey á Þjóðhátíð. Hörður O. Grettisson, sem situr í Þjóðhátíðarnefnd, segir miðasölu á pari við það sem var í fyrra.

Birgir Guðjónsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, sagði á föstudagskvöldinu í fyrra aldrei hafa séð fleiri í brekkunni. Ekki liggur fyrir hve margir mættu á Þjóðhátíð í fyrra enda Eyjamenn ekki viljað upplýsa fjölmiðla um nákvæmar tölur hvað varðar miðasölu. Það er óbreytt en Hörður segir miðasöluna ganga vel.

Aðeins eru laus sæti í tvær ferðir með Herjólfi til baka frá Eyjum á mánudeginum sem gefur til kynna sókn fólks í miða á Eyjuna fögru um verslunarmannahelgina. Þá siglir farþegaferjan Viking til Eyja og er enn hægt að fá miða í ferðir hjá þeim.

Óhætt er að fullyrða að dagskráin hafi sjaldan verið jafn góð. Bubbi & Dimma, FM Belfast, AmabAdamA, Páll Óskar, Friðrik Dór, Ný Dönsk, Sálin hans Jóns míns, Júníus Meyvant, Land & Synir, Sóldögg, Maus, Jón Jónsson, Ingó & Veðurguðirnir, Buff ásamt Ágústu Evu, Páli Óskari, Eyþór Inga og Sverri Bergmann og FM95Blö koma fram á hátíðinni sem venju samkvæmt verður sett á föstudeginum. Kvöldið á undan er svo hið sívinsæla húkkaraball.

Hitað var upp fyrir Þjóðhátíð í veislu sem styrktaraðilar blésu til í Viðey á dögunum. Þar var stemningin góð og mátti meðal annars finna fólk sem ætlar í brúðkaupsferð til Eyja. Myndband frá upphituninni má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×