Innlent

Ómetanlegri tölvu stolið á meðan hún svæfði dætur sínar

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hlaðgerður vonar að þjófurinn hafi tilfinningar og skili tölvunni.
Hlaðgerður vonar að þjófurinn hafi tilfinningar og skili tölvunni.
„Það tók mig alveg marga klukkutíma að trúa þessu. Raunveruleikinn var svo lengi að koma yfir mann,“ segir Hlaðgerður Íris Björnsdóttir, málari, sem lenti í því óhugnalega atviki að á meðan hún svæfði litlu stúlkurnar sínar tvær laumaðist þjófur inn í íbúð hennar og tók fartölvu hennar sem lá á skrifborði sem sást vel ef staðið er í inngangi íbúðarinnar.

„Að einhver skuli vera að koma inn þar sem maður er. Manni finnst maður hálfvarnarlaus. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessari tilfinningu. Þetta er bara áfall, að missa tölvuna,“ segir Hlaðgerður en tölvan er bæði vinnutæki auk þess sem hún geymir ógrynni fjölskyldumynda.

„Það eru tvö og hálft ár síðan ég tók backup. Þetta er alveg mjög mikið magn af myndum. Ég tek svo ofboðslega mikið.“ Hún notast einnig mikið við ljósmyndir þegar hún málar. „Ég set upp myndatökur, það er heilmikil fyrirhöfn, er oft með marga einstaklinga í myndatöku í einu. Hef allt til, föt og fylgihluti.“

Tölva Hlaðgerðar hefur litið svona út. Macbook pro tölva frá árinu 2011, þrettán tommu.
Hlaðgerður hafði verið með eldri dóttur sína, sex ára, á tónleikum hjá Ungsveit Sinfóníunnar um kvöldið og eftir tónleikana héldu þær mæðgur til ömmu og af a þar sem yngri stelpan hennar, fjögurra ára gömul, var í pössun.

Tölvunni stolið þegar hún svæfði dætur sínar

„Við vorum boðnar í kvöldkaffi og spil þannig að það dróst að fara heim. Við vorum ekki komnar heim fyrr en um hálf eitt um nóttina. Ég bar þessa yngstu inn og fór beint á svefnherbergisganginn. Svo vorum við að hátta og bursta tennur. Ég skaust fram, settist við tölvuna og skrifaði skilaboð.“

Síðan fór hún aftur inn til dætra sinna, lagðist hjá þeim, beið þangað til þær voru sofnaðar og setti þá hurðina í lás. Hlaðgerður segir um hálftíma glugga að ræða þar sem hurðin var lokuð en ekki í lás.

Sjá einnig: Forréttindi að fá að mála

„Ég kom fram um morguninn klukkan sjö og tek eftir því að tölvan er horfin. Ég leitaði í rúman klukkutíma því ég trúði þessu ekki. Ég hélt að ég hefði fært hana eða hreinlega gengið í svefni. Ég leitaði af mér allan grun því ég fékk kjánahroll við tilhugsunina um að hún myndi finnast þegar lögreglan væri hjá mér.“

Hlaðgerður hringdi í lögregluna þegar hún hafði leitað tölvunnar dyrum og dyngjum. Lögreglan kom og tók skýrslu en Hlaðgerður telur að það sé lítið sem hún getur gert.

Hlaðgerður er listakona og notar ljósmyndir mikið í vinnu sinni. Nú hefur stór hluti vinnu hennar glatast.Vísir/Ernir
Heyrði engan umgang

„Ég var eins og hálf vönkuð í gær. Reyna að skipuleggja afmæli og versla inn, kaupa gjöf og reyna að ná utan um þetta allt saman.“ Dóttir Hlaðgerðar, sú yngri, á afmæli í dag og er að verða fimm ára gömul.

„Svo svona smá síast þetta inn. Að maður sé að missa þarna öll þessi gögn. Maður hugsar bara líka ef stelpurnar hefðu orðið þyrstar og ég hefði farið fram, eða þær farið fram að sækja sér vatn, meðan einhver er inni sem maður veit ekki hver er.“

Hlaðgerður segist ekki hafa orðið vör við neinn umgang í íbúðinni. „Ég heyrði ekki neitt nema ég heyrði umgang í stigaganginum þegar ég var inni hjá þeim. Ég heyrði ekkert annað.“

Hún tekur fram að hún sé engan veginn ópassasöm með sína hluti.

„Ég passa mig alveg, ég læsi þegar ég fer á daginn. Við svona þá velti ég fyrir mér hvað ég hefði getað gert öðruvísi, hvað get ég gert meira án þess að virka paranoid? Manni bregður alveg við þetta, maður fer yfir ótalmarga hluti.“

Ekki orðið of seint að skila tölvunni

Hlaðgerður segist tilbúin til að gera nánast hvað sem er til að fá tölvuna aftur. Hún segist ekkert hafa athugað með tryggingar sínar ennþá enda segir hún tjónið óbætanlegt. Um 13 tommu MacBook pro tölvu er að ræða frá 2011 og upphafsmyndin er lítil svarthvít mynd af Hlaðgerði ásamt fullu nafni.

Henni er svo mikið í mun að fá myndirnar að engir eftirmálar yrðu ef þjófurinn sér að sér og skilar henni.

„Ef þessi aðili sér þetta, ég yrði honum alveg ofboðslega þakklát ef hann myndi skila tölvunni eða hafa samband. Ef það er eitthvað annað sem hann vanhagar um, ég gæfi mikið fyrir að fá hana aftur í hendurnar. Ég vona að hann hafi tilfinningar, skilji hvað þetta er manni sárt að missa svona myndir af börnunum sínum. Í svona langan tíma á meðan þau eru svona lítil.“ Hún bendir á að þjófurinn viti auðvitað hvar hún á heima og gæti komið sjálfur og skilað tölvunni. „Það er ekki orðið of seint. Það yrðu ekki neinir eftirmálar af minni hálfu ef ég fengi tölvuna.“

Hlaðgerður var í viðtali hjá Lífinu hér á Vísi í janúar á þessu ári. Hér má lesa viðtalið við hana í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×