Innlent

Erlend leigubílaþjónusta ekki æskileg

Linda Blöndal skrifar
Hefðbundnir leigubílar eru nú víða um borgir heims í harðri samkeppni við alþjóðleg fyrirtæki eins og Uber og Lyft, þar sem símaöpp eru notuð til að panta bíl og engin leigubílastöð rekin. Nærri hver sem er getur unnið sem bílstjóri á eigin bifreið undir merkjum þessara fyrirtækja sem lofa hraðari þjónustu, rafrænt í símanum sem veitir allar mögulegar upplýsingar um ferðina. Teikn eru á lofti um að leigubílamarkaðurinn hér á landi taki breytingum á næstunni með aukinni samkeppni. 



Taka Uber appið sér til fyrirmyndar

Bifreiðastöð Reykjavíkur, BSR sem hefur starfað síðan árið 1921 hefur gert smáforrit fyrir snjallsíma, líkt og Hreyfill-Bæjarleiðir sem er stærsta stöð landsins. Í Fréttablaðinu í dag segir hins vegar frá nýlegri stöð á Íslandi, Taxi Service sem mun nota forrit svipað og Úber og spara þannig rekstrarkostnað. Bílstjórarnir verði þó allir að hafa tilskilin leyfi samkvæmt reglum hérlendis. 

Ráðherra skoðar aukið frelsi

Ólöf Nordal samgönguráðherra skoðar nú hvort rýmka ætti reglur fyrir leigum eins og Uber sem hefur þó til dæmis verið hafnað í Þýskalandi og Frakklandi. Guðmundur Börkur Framkvæmdastjóri BSR segist fagna áhuga ráðherra en slík þjónusta myndi að sínu mati ekki breyta miklu hér á landi varðandi verð og þjónustu leigubifreiða.

„Bílarnir okkar eru komnir á staðinn eftir um það bil fimm mínútur. Varðandi Uber, þá er þetta bókunarsíða. Þetta er ekki leigubílastöð, þetta er ekki leigubíll. Þetta er bókunarkerfi sem virkar í appinu sem tekur þóknun. Þeir peningar fara út úr landinu, skila sé ekki inn í hagkerfið og í dag er þetta tíu present”, sagði Guðmundur í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Yfirbygging leigubílsstöðva ekki kostnaðarsöm

Guðmundur segir rekstur leigubílastöðva ekki dýra. Eigi að lækka verð á leigubílafarinu myndi það bitna á launum bílstjóranna. „Að reka leigubílastöð og þá þjónustu sem hún veitir leigubílstjórunum sem felst í símaþjónustu allan sólarhringinn, þvottaaðstöðu og kaffistofu og svo framvegis. Það er líklega tólf present af tekjum eða innkomu stöðvarinnar”, segir Guðmundur. 



Skapa atvinnu og öryggi 

Aðspurður hvort að þessi þjónusta við bílstjórana sé þó nauðsynleg segir Guðmundur að það verði til þess að það verði kannski tveimur prósentum dýrara en sem Uber rukkar. „Við sköpum atvinnu, erum með starfsfólk í vinnu og fólk getur hringt í okkur og lagt fram sín erindi. Þú hringir ekki í Uber og þeir sem keyra leigubíl fyrir þá þurfa ekki að skila sakavottorði eða hafa tilskilin réttindi til leigubílaaksturs eins og kerfið krefst í dag hér”, sagði Guðmundur ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×