Innlent

Furða sig á ákvörðun ráðherranna og Sigmundur sakaður um heigulshátt

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Hart er deilt á þingi.
Hart er deilt á þingi. vísir/vilhelm
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, furðaði sig á því að forystumenn ríkisstjórnarinnar skyldu ákveða að sitja landsleikinn í Laugardalnum frekar heldur en umræður um hugsanlega lagasetningu á verkföll BHM og íslenskra hjúkrunarfræðinga.

„Sumir þingmenn stjórnarliðsins voru að býsnast yfir því hvar þingflokksformenn og formenn minnihlutans eru. Ég get sagt þeim það. Þeir eru á fundi með þeim aðilum sem verkfallið á að setja á. Ég get líka sagt þessum sömu þingmönnum hvar stjórnarherrarnir eru. Þeir eru á landsleiknum, í stað þess að sitja hér í þinghúsinu og ræða þetta mál. Fyrsta flokks heilbrigðiskerfi er ekkert forgangsatriði fyrir þessa ríkisstjórn,“ sagði Jón Þór , eftir að Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði hvers vegna ráðherrabekkurinn væri tómur. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði spurningu hennar ósanngjarna: „Það er enginn hérna nema einn frá Vinstri grænum,“ sagði hann.

Hvorki bein né garnir til að flytja málið

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sakaði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um heigulshátt. „Það má í sjálfu sér bera lof á hæstvirtan landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem tekur að sér kóngsins járn og arbeið og flytur þetta mál þó hann sé nánast ekki tengdur málinu að nokkru leyti. Það er auðvitað þannig að nokkur af þeim stéttarfélögum sem að þessi lagagerningur á að ná yfir vissulega tengjast hans ráðuneyti. Þegar maður les hins vegar heiti þessara sautján stéttarfélaga þá er lang lang mest af þeim undir verksviði heilbrigðisráðherra,“ sagði Össur og bætti við að með öllu eðlilegu hefði forsætis- eða heilbrigðisráðherra átt að flytja frumvarpið.

„Það hefði verið eðlilegast að hæstv. forsætisráðherra hefði flutt málið en hæstv. forsætisráðherra virtist ekki hafa bein til þess. Og hann virðist heldur ekki hafa garnir til þess að koma hingað og flytja ræðu.“


Tengdar fréttir

Sigmundur mun ekki flytja frumvarpið

Fordæmalaust er að forsætisráðherra flytji ekki frumvarp um frestun verkfalla ef það snertir starfsstéttir fleiri en eins ráðuneytis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×