Innlent

Erill hjá lögreglu: Fíkniefni á Secret Solstice og ökumaður með ógnandi tilburði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nóg var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Nóg var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. vísir/kolbeinn tumi
Nokkur erill var hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins liðna nótt. Þurfti meðal annars að hafa afskipti af ökumanni í austurhluta borgarinnar en hann var eitthvað ósáttur við það og var með ógnandi tilburði við lögreglumenn. Neitaði maðurinn að hlýða fyrirmælum og kom til átaka.

Lögreglumenn þurftu því að beita piparúða til að yfirbuga manninn en hann var svo fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem hann var vistaður í fangageymslu.

Rétt rúmlega hálftvö var svo tilkynnt um mann sem gekk um í austurbænum með grjót í hendi og virtist gera sig líklegan til að skemma bíla. Maðurinn náðist og við leit á honum fannst lítilræði af ætluðum fíkniefnum. Hann var vistaður í fangageymslu.

Tónlistarhátíðin Secret Solstice hófst í gær í Laugardalnum og kemur fram í tilkynningu frá lögreglu að á annan tug fíkniefnamála hafi komið upp á hátíðinni.

Þá var tilkynnt um heimilisofbeldi og líkamsárás í heimahúsi í Hafnarfirði í nótt. Gerandinn, karlmaður, var farinn af vettvangi. Ekki voru áverkar á konunni.

Um hálffjögur í nótt barst svo tilkynning um mann sem hafði rotast á skemmtistað í Hafnarfirði eftir líkamsárás. Ekki er vitað um árásarmanninn að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×