Innlent

„Maður verður mjög sterkur af þessu og ég er alltaf að víkka út takmörk mín“

Hrund Þórsdóttir skrifar
Birgitta Michaelsdóttir er tvítug ævintýrakona af sjómannsættum sem ákvað eftir nám í Kvennó að skella sér í siglinganám á danskri seglskútu. Hún siglir nú um Norður-Atlantshafið í fimm mánuði, oft við afar krefjandi aðstæður.

Í náminu lærir Birgitta allt sem sjómenn þurfa að kunna, svo sem siglingafræði, vélfræði og slökkvistarf.

„Það er allt gert með handafli hérna um borð. Það reynir mikið á og alla leiðina til Íslands sigldum við fyrir seglum, svo ég er ansi þreytt núna, segir Birgitta.

Nemendur þurfa að vera óhræddir, til dæmis við að klifra upp í mastur úti á rúmsjó, án öryggislínu og í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt sést að þetta er líklega ekki fyrir hvern sem er. Nemendur bera líka sjálfir ábyrgð á að stýra skipinu.

„Það getur orðið mjög erfitt að stýra því þegar öldurnar koma, þær ganga jafnvel fjögurra metra háar hérna yfir okkur. Þá tekur mikið í stýrið og þá þurfum við að vera tvö, svo stýrið fari ekki bara að hringsnúast og svo við slösum okkur ekki.“

Um borð eru 63 nemendur auk tíu manna áhafnar og undir þiljum, þar sem allir borða, sofa og læra getur verið þröng á þingi. Hver og einn á sitt hengirúm sem setja þarf upp á hverju kvöldi, eins og sýnt er í meðfylgjandi myndskeiði. Fólk sefur þétt saman og Birgitta segir að nándin geti tekið mikið á.

„En þetta er það sem ég vil. Ég tók þá ákvörðun að gera þetta og maður verður að notfæra sér reynsluna til fulls, allar hliðar hennar. Þetta er mikil áskorun og þetta er erfitt en það er allt í lagi því það kemur nýr dagur og við bara lifum af. Maður verður mjög sterkur af þessu og ég er alltaf að víkka út takmörk mín, á hverjum einasta degi,“ segir hún.

Birgitta getur vel hugsað sér að starfa við siglingar, til dæmis á seglskipum í Karíbahafinu.

„Það er mjög gaman að sigla um Norðurlöndin en það væri nú gaman að fara á hlýrri slóðir líka, einhvern tímann,“ segir hún að lokum og vetrarþreyttir Íslendingar eiga eflaust auðvelt með að skilja það.


Tengdar fréttir

Fór beint úr Kvennó að læra sjómennsku

Birgitta Michaelsdóttir er tuttugu ára nemandi á danska skólaskipinu Georg Stage. Hún býr um borð í seglskútunni með sextíu öðrum nemendum. Hún segir að þó að það sé þröngt um fólkið sé námið mikil og skemmtileg áskorun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×