Innlent

Slitabúin geta ekki sett nein skilyrði

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherra segir slitabú gömlu bankanna ekki geta sett nein skilyrði fyrir nauðasamningum. Þau verði þvert á móti að uppfylla öll skilyrði stjórnvalda.
Forsætisráðherra segir slitabú gömlu bankanna ekki geta sett nein skilyrði fyrir nauðasamningum. Þau verði þvert á móti að uppfylla öll skilyrði stjórnvalda. vísir/vilhelm
Forsætisráðherra segir slitabú gömlu bankanna ekki geta sett nein skiyrði fyrir því að ganga til nauðasamnnga, til að mynda að nýju bankarnir sem þau eiga hlut í verði ekki seldir til innlendra aðila. Ef slitabúin gangi ekki að öllum skilyrðum stjórnvalda fari þau skattlagningarleiðina.

Katrín Júlíusdóttir þingmaður Samfylkingarinnar spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun, hvort slitabú Glitnis hefði sett þau skilyrði fyrir því að ganga til nauðasamninga, að Íslandsbanki yrði ekki seldur innlendum aðilum næstu fimm árin. En greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag.

Forsætisráðherra sagði slitabúin ekki geta sett fram nein skilyrði sjálf kysu þau að fara að stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda í væntanlegum haftalögum.

„Þau geta viðrað hugmyndir. En það breytir í engu því að ef þau ætla að klára nauðasamninga og ljúka sínum málum hér með þeim hætti, þá verða þau að uppfylla öll stöðugleikaskilyrði stjórnvalda og þau eru óumsemjanleg,“ segir Sigmundur Davíð.

Ef slitabúin framfylgi ekki öllum skilyrðunum stjórnvalda fari búin skattlagningarleiðina. Þá séu skilyrði að hálfu stjórnvalda komi til þess að slitabúin selji hlut sinn í nýju bönkunum.

„Þegar þau verða seld, sama hvert þau verða seld, verði þau seld á meiri pening en þau eru bókfærð á núna mun ríkið fá á milli 50 til 75 prósent af þeim hagnaði. Af þeirri virðisaukningu,“ segir forsætisráðherra.

Katrín minnti á að Frosti Sigurjónsson þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefði opinberlega lýst því yfir að hann sé andvígur því að hlutur kröfuhafa í nýju bönkunum verði seldur erlendum aðilum.

„Menn hafa líka haldið því fram að verði bankar hér seldir á lágu verði til erlendra aðila séu menn ekki að leysa vandann heldur eingöngu fresta honum og færa hann til,“ sagði Katrín.

Forsætisráðherra sagði að um áratugaskeið hefði verið leitast við að fá erlenda aðila inn á íslenskan bankamarkað.

„Og það hefði ýmsa kosti í för með sér ef sá aðili ætlaði sér að standa hér í bankarekstri í samkeppni við aðra banka. Hins vegar er ég sammála háttvirtum þingmanni Frosta Sigurjónssyni um það, að það er ekki sama um hvaða aðila væri að ræða. Það væri t.d. ekki gott að íslensku bankarnir kæmust í eigu einhverra fjárfestingarsjóða sem ætluðu sér ekkert að standa í rekstri banka heldur eingöngu að reyna að ná sem mestu héðan út á sem skemmstum tíma. Það væri óásættanlegt fyrirkomulag,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×