Innlent

Forsætisráðherra segir gott yrði að fá útlendinga í bankastarfsemi

Heimir Már Pétursson skrifar
Slitabú gömlu bankanna geta ekki sett nein skilyrði fyrir sölu þeirra á hlut sínum í nýju bönkunum en verða þvert á móti að fara að öllum skilyrðum stjórnvalda vilji þau ganga til nauðasamninga. Forsætisráðherra segir að öðrum kosti fari slitabúin skattaleiðina.

Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að kröfuhafar sem eiga stærstan hluta Íslandsbanka í gegnum slitabú Glitnis setji þau skilyrði að kaupi útlendingar Íslandsbanka geti þeir ekki selt hlut sinn aftur til Íslendinga næstu fimm árin. Þingmaður Samfylkingarinnar spurði forsætisráðherra út í þetta á Alþingi í morgun sem sagði slitabúin ekki geta sett nein skilyrði vildu þau fara í nauðasamninga samkvæmt þeim haftafrumvörpum sem nú eru til umræðu á Alþingi.

„Þau geta viðrað hugmyndir. En það breytir í engu því að ef þau ætla að klára nauðasamninga og ljúka sínum málum hér með þeim hætti, þá verða þau að uppfylla öll stöðugleikaskilyrði stjórnvalda og þau eru óumsemjanleg,“ segir Sigmundur Davíð.

Ef slitabúin framfylgi ekki öllum skilyrðum stjórnvalda verði þau að fara skattlagningarleiðina. Ef bankarnir seljist fyrir meira fé en bókfært verðmæti þeirra sé nú mni íslenska ríkið fá 50 til 75 prósent af þeim umframhagnaði.

„Nú hefur formaður efnahags- og viðskiptanefndar (Frosti Sigurjónsson) sagt að hann telji að það þjóni ekki hagsmunum okkar Íslendinga að þessir bankar verði í eigu erlendra aðila þegar þegar þessu öllu saman er lokið. Þegar þessi hringekja hefur átt sér stað. Mig langar að spyrja hæstvirtan forsætisráðherra um hans afstöðu gagnvart því,“ sagði Katrín Júlíusdóttir þingmaður Samfylkingarinnar í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Forsætisráðherra sagði það hafa ýmsa kosti ef erlendur aðili kæmi hér að bankarekstri í samkeppni við aðra banka.

„Hins vegar er ég sammála háttvirtum þingmanni Frosta Sigurjónssyni um það, að það er ekki sama um hvaða aðila væri að ræða. Það væri t.d. ekki gott að íslensku bankarnir kæmust í eigu einhverra fjárfestingarsjóða sem ætluðu sér ekkert að standa í rekstri banka heldur eingöngu að reyna að ná sem mestu héðan út á sem skemmstum tíma. Það væri óásættanlegt fyrirkomulag,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×