Innlent

Tímamótauppgötvun í læknavísindum gæti útskýrt alzheimer og einhverfu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Vísindamenn við læknadeild Virginíuháskóla hafa komist að því eftir viðamiklar rannsóknir að heilinn er beintengdur ónæmiskerfinu í gegnum æðar sem áður var ekki vitað að væru yfirhöfuð til í mannslíkamanum.

Það þarf því að fara í viðamikla endurskoðun á kennslubókum í læknavísindunum enda hefur þetta hvergi komið fram áður.

Michael Valur Clausen er sérfræðingur í ofnæmislækningum.
Michael Valur Clausen sérfræðingur í ofnæmis- og barnalækningum, ræddi þessa uppgötvun við þáttastjórnendur í Reykjavík síðdegis. Þar kemur fram að litið sé á fundinn eins og landfund í læknavísindunum.

„Já vissulega, þetta er eitthvað sem við vissum ekki að væri þarna áður. Þetta er það sem við köllum sogæðakerfi sem er í heilahimnunum og tengir saman ónæmiskerfið við heilann í rauninni. Það þýðir það að áður fyrr var ekki talið að slík tengsl væru yfirhöfuð til staðar en nú er búið að sýna fram á það.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að ofan.

Á ekki von á lækningu í bráð

„Það eru allskonar sjúkdómar sem hafa með ónæmiskerfið að gera sem herja á heilann eins og við þekkjum með MS og alzheimer. Eins og með alzheimer þá orsakast hann af uppsöfnun á prótínum í heilanum sem menn eru núna að velta fyrir sér hvort geti verið útaf því að þetta kerfi virki ekki rétt. Það eru aðrir sjúkdómar eins og autismi sem er einhverfa sem gæti tengst þessu líka.“

Heilinn er magnað fyrirbæri og enn er margt sem ekki er vitað um hann þrátt fyrir viðamiklar rannsóknir.Vísir/Getty
Michael gengur ekki svo langt að segja að lækningu við þessum sjúkdómum sé að finna í bráð en að hér sé allavega um uppgötvun að ræða sem gæti verið skref í rétta átt. „Hér er um að ræða möguleika sem gæti skýrt af hverju hlutirnir eru á þennan veg og þá er hægt að einbeita sér að einhverjum leiðum til að takast á við það. Það yrði þá væntanlega næsta skref.“

Michael tekur hins vegar fram að tengsl við heilann og ónæmiskerfið hafi verið þekkt lengi. Þau liggi í gegnum görnina. „Þar erum við með bakteríur, í görninni, sem eru tíu sinnum fleiri en frumurnar í líkama okkar. Þær gefa frá sér allskonar efni, boðefni og annað, sem hafa áhrif á taugakerfið og stýra þannig mörgum þáttum í lífi okkar. Bara til dæmis hvernig okkur líður.“

Garnaflóran stýrir líðan okkar

Rannsóknir, bæði á rottum og músum og nýlega á mönnum, sýna fram á að breytingar í garnaflórunni getur haft áhrif á líðan dýra og breytt hegðun.

En hvernig viðheldur maður réttu magni af þessum bakteríum og fær góðar bakteríur?

„Það gerir maður með lifnaðarháttum sínum. Með því hvað maður borðar. Það virðist vera að það skipti máli hvað maður borðar, til dæmis grænmeti og ávexti, það hefur góð áhrif á garnaflóruna á meðan mikil kjötneysla og auðmeltur sykur hefur slæm áhrif.“

Lesa má frekar um uppgötvunina hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×