Innlent

Skýringa enn leitað á dularfullum sauðfjárdauða

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Ríflega eitt hundrað bændur um allt land hafa orðið varir við óvenjulegan sauðfjárdauða á bæjum sínum. Dýralæknir segir skýringa enn leitað en að kindurnar hafi fóðrast illa.

Matvælastofnun hefur undanfarna viku unnið að því að kanna umfang og útbreiðslu sauðfjárdauða víða um land. Dýralæknar á Keldum og hjá Matvælastofnun hittust í dag til að meta stöðuna. 109 sauðfjárbændur hafa orðið varir við óvenjulegan sauðfjárdauða og hafa nú svarað spurningalista þessa efnis.

„Þetta eru svör frá öllu landinu og þetta eru ær og hrútar,“segir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun. „Þetta er af báðum kynjum og það er á öllum aldri sem er óeðlilegur dauði í sauðfénu. Það virðist vera hærri dauðatíðni á Vesturlandi og Norðvesturlandi, allt upp í fjórtán prósent. Það er það hæsta sem við höfum séð í þessari spurningakönnun. Lægsta dauðatíðnin er á Austurlandi, það er undir fimm prósent þar.“

Sigurborg telur að svo geti vel verið að óvenjulegur sauðfjárdauði sé á fleiri bæjum. Enn er verið að leita skýringa dauðans.

„Það er vitað að þetta fé nærist ekki,“ segir Sigurborg. „Bændur hafa aukið  verulega fóðurbætisgjöfina. Þeir gefa miklu meira fóðurbæti í ár en undanfarin ár, en af einhverjum ástæðum nýtir dýrið ekki það fóður sem í hana fer. Þær halda lyst en nærast ekki og horast.“

Sigurborg segir það ómögulegt að segja á þessari stundu um hvers lags sjúkdóm sé að ræða en ekkert sé útilokað.

„Það er augljóst að þetta er sjúkdómur, en af hvaða völdum vitum við ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×