Innlent

Áhöfn Týs kemur heim með stolt í farteskinu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Varðskipið Týr kom í dag heim eftir ríflega hálfs árs störf á Miðjarðarhafi, þar sem áhöfnin hefur komið að björgun hátt í fjögur þúsund flóttamanna. Skipverjar, sem hafa fengið áfallahjálp vegna starfa sinna, segja erfiðast að koma að börnum í þessum erfiðu aðstæðum. 

Einar Heiðar Valsson, skipherra á Tý, segir að aðgerðirnar hafi tekið á bæði líkamlega og andlega.

„Mér telst til að við séum búin að koma að björgun, með beinum og óbeinum hætti, 3.257 einstaklinga frá fyrsta desember. Í síðustu aðgerð okkar tókum við yfir 300 manns um borð úr tveimur bátum og í næsta bát við hliðina á voru tíu látnir. Þannig að við erum búin að vera einstaklega heppin í þessu starfi okkar. En að fólk sé að leggja upp í þessa hættuför sem er þarna yfir um hávetur með kornabörn í fangi sér, það tekur á að sjá svoleiðis,“ segir hann. 

Einar segir erfiðast að horfa upp á börn í erfiðum aðstæðumMYND/LANDHELGISGÆSLAN
Á nýársdag bjargaði áhöfn Týs um fjögur hundruð flóttamönnum úr skipinu Ezadeenum en um borð voru sextíu börn og og þrjár ófrískar konur. Magnús Þór Guðjónsso, bátsmaður í Tý, segir erfitt og átakanlegt að hafa séð aðbúnað fólksins í skipi sem venjulega flytur dýr. 

MYND/LANDHELGISGÆSLAN
„Það er erfitt að horfa upp á neyðina sem þetta fólk er í en það er ofsalega góð tilfinning að geta hjálpað líka. Það eru skiptar skoðanir um það sem við erum að gera en ég kem heim með stolt í farteskinu. Mér finnst okkur hafa gengið vel. Þetta er búið að vera flott áhöfn og við höfum unnið vel saman. Þannig að nú fer maður bara ánægður inn í sumarfrí,“ segir Andri Már Jónsson háseti og kafari.

MYND/LANDHELGISGÆSLAN



Fleiri fréttir

Sjá meira


×