Innlent

Lítið af smáum humri fannst í vorleiðangri Hafró

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Úr vorleiðangrinum
Úr vorleiðangrinum mynd/hafró
Árlegum humarleiðangri Hafrannsóknarstofnunnar að vorlagi lauk 18. maí en hann stóð í tvær vikur. Helsta markmið leiðangursins er að meta stofnstærð og stofnsamsetningu humars og flatfisks. Alls voru gerðar mælingar á 53 stöðvum frá Jökuldjúpi austur í Lónsdjúp.

Stofnvísitala humars í maí hefur farið lækkandi frá árinu 2008 og mældist nú sú lægsta frá árinu 1987 þegar núverandi stöðvaskipan komst á. Vísitalan hefur yfirleitt endurspeglað afla á sóknareiningu nokkuð vel, en hefur þó verið lægri en afli á sóknareiningu síðan 2011.

Samkvæmt stofnmælingu í maí 2015 var 53–58 mm skjaldarlengd (11–13 ára humar) mest áberandi miðað við fjölda (2. mynd). Hlutfall 14 ára og eldri humars (60 mm og stærri) var mjög hátt, en aldrei hefur mælst eins lítið af humri undir 40 mm. Innan fárra ára munu þessir veiku árgangar þurfa að bera veiðarnar uppi. Líkt og þrjú síðustu ár var það einkum norðan við Eldey og í Skerjadjúpi sem vart varð við vott af nýliðun.

Af öðrum tegundum má nefna að líkt og í fyrra fékkst mjög lítið af langlúru 30 cm og minni, en magn smárrar langlúru hefur farið ört minnkandi síðan 2010. Magn veiðanlegrar langlúru var yfir meðalagi, heldur minna en í fyrra og hefur farið hægt minnkandi síðan árið 2005.

Humarleiðangurinn fór fram um borð í Dröfn RE 35. Leiðangursstjóri var Jónas Páll Jónasson og skipstjóri Gunnar Jóhannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×