Innlent

Eðlilegt að atkvæði kennara hafi meira vægi

Anna Guðjónsdóttir skrifar
Jón Atli Benediktsson og Guðrún Nordal telja bæði nauðsynlegt að efla fjármagn til Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson og Guðrún Nordal telja bæði nauðsynlegt að efla fjármagn til Háskóla Íslands. Vísir/Pjetur
Í dag er seinni umferð kosninga til embættis rektors Háskóla Íslands. Kosið er á milli Jóns Atla Benediktssonar og Guðrúnar Nordal. Eftir fyrri umferð sat enginn uppi með hreinan meirihluta, Jón Atli hlaut 48,9 prósent atkvæða en Guðrún 39,4 prósent. Einar Steingrímsson var þriðji frambjóðandinn en datt út eftir fyrri umferðina.

Frambjóðendurnir tveir mættu í Eyjuna og ræddu áherslumál sín. Þau tala bæði fyrir ýmsum breytingum og telja gríðarlega nauðsynlegt að efla fjármagn til skólans. Guðrún segir skólann helstu mennta- og rannsóknarstofnun landsins sem verði að hlúa að. Jón Atli tók undir það og að nauðsynlegt væri að bæta kjör starfsmanna skólans þrátt fyrir mikinn niðurskurð.

Jón Atli og Guðrún voru sammála um það að eðlilegt væri að atkvæða kennara innan skólans hefðu meira vægi en atkvæði nemenda þar sem mikil hreyfing er á meðal nemenda skólans. Atkvæði kennara gilda 70 prósent meðan atkvæði nemenda 30 prósent. Gagnrýnt hefur verið að stundakennarar innan háskólans geta ekki kosið. 

Jón Atli er prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði og hefur gegnt starfi aðstoðarrektors vísinda og kennslu. Guðrún hefur starfað sem forstöðumaður Árnastofnunar í sex ár og er prófessor í íslenskum bókmenntum.

Frá 1911 hefur aðeins ein kona hefur gegnt starfi rektors, en það er núverandi rektor, Kristín Ingólfsdóttir. Guðrún Nordal tók fram að kjósa ætti hæfasta einstaklinginn í starfið. Hún hefur komið þeim skilaboðum til kvenna innan Háskóla Íslands að nauðsynlegt sé að konur taki þátt í þessum kosningum. Þær eru 8699 af nemendum skólans, en aðeins 3180 kusu í síðustu viku.

Kosningarnar munu standa frá 9 til 18 í dag. 


Tengdar fréttir

Bæði bjartsýn á að ná kjöri

Jón Atli Benediktsson og Guðrún Nordal keppa um stöðu rektors H.Í. í annarri umferð og telja sig bæði eiga möguleika á að ná kjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×