Innlent

Bíó Paradís selur tíu ára árskort fyrir bætt aðgengi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Kvikmyndahúsið státar ekki af góðu aðgengi fyrir fólk sem bundið er við hjólastól.
Kvikmyndahúsið státar ekki af góðu aðgengi fyrir fólk sem bundið er við hjólastól. Vísir/Ernir
Kvikmyndahúsið Bíó Paradís hefur hafið söfnun á vefsíðunni Karolina Fund til þess að safna fjármagni svo hægt sé að bæta aðgengi fólks í hjólastólum. Aðgengismál í bíóhúsinu vöktu mikla athygli síðastliðið haust. Fréttablaðið ræddi við Guðjón Sigurðsson, formann MND samtakanna sem bundinn er við hjólastól og komst sökum lélegs aðgengis í bíóhúsinu ekki á mynd um ófatlaða og fatlaða listamenn í október síðastliðnum.



„Ég var klár að leggja af stað á frumsýninguna sem fulltrúi eins styrktaraðila myndarinnar þegar ég fékk hringingu og mér var sagt að þeir ætluðu að bera þá sem væru í hjólastól inn í salinn. Ég vissi að þeir gætu ekki borið mig inn, stóllinn einn og sér er 175 kíló og ég yfir 100 kíló. Auk þess sem það er bara niðurlægjandi að láta bera sig inn,“ sagði Guðjón af því tilefni í samtali við Fréttablaðið.


„Söfnunin felst í sölu aðgöngumiða og korta á sýningar Bíó Paradísar og er hægt að velja um marga möguleika til að styrkja málefnið, allt frá því að kaupa miða fyrir tvo á eina sýningu upp í tíu ára árskort í Bíó Paradís,“ segir í tilkynningu frá bíóhúsinu. Í september síðastliðnum sagði Fréttablaðið frá því að bíóhúsið hefði sótt um tveggja milljón króna styrk til þess að bæta aðgengi fyrir fólk sem bundið er við hjólastól. Það fjármagn fékkst ekki og því hefur verið ákveðið að fara þessa fjármögnunarleið.

Sjá einnig: Fatlaður komst ekki á mynd um fatlaða

Eina listræna kvikmyndahús landsins


„Bíó Pardís hefur unnið með Ferilnefnd fatlaðra hjá Reykjavíkurborg að greiningu og tillögum að úrbótum og er áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga rúmar 6,5 milljónir króna,“ segir í tilkyninningunni. „Verkefnið er mun stærra en húsið ræður við með rekstrinum og var því ákveðið að hefja söfnunina. Öllum ágóða  verður varið í að setja inn lyftur og koma fyrir salerni sem er aðgengilegt fólki í hjólastólum.“ Þar segir jafnframt að verkfræðistofan Mannvit komi til með að annast framkvæmdir.

Sjá einnig: Þurfa tvær milljónir í bætt aðgengi

„Bíó Paradís stendur fyrir afar fjölbreyttri starfsemi og er vonast til að söfnunin hljóti góðar viðtökur til að hægt sé að bæta aðgengi allra að húsinu. Um 18.000 leik- og grunnskólanemendur komið á sérstakar sýningar í kvikmyndalæsi sem þróaðar hafa verið af bíóinu, auk yfir 3.000 framhaldsskólanema. Þar er haldin eina barnakvikmyndahátíð landsins, auk fjölda viðburða og sérsýninga á kvikmyndum frá öllum heimshornum. Bíó Paradís er einnig mikilvægur vettvangur fyrir innlent kvikmyndagerðarfólk en þar hafa verið sýndar yfir 200 íslenskar stutt- og heimildamyndir frá opnun bíósins árið 2010.“

Bíó Paradís er eina kvikmyndahúsið sem eftir er í miðbæ Reykjavíkur. Í tilkynningunni segir jafnframt að það sé eina listræna kvikmyndahús landsins. Sjálfseignarstofnunin Heimili kvikmyndanna ses er rekstraraðili og því er fyrirtækið rekið alfarið án hagnaðarsjónarmiða. 

Söfnunin er hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×