Innlent

Fimm þolendur heimilisofbeldis fengið neyðarhnapp frá lögreglu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sakfellt var í öllum átta heimilisofbeldismálunum sem komu til kasta lögreglunnar á Suðurnesjum árið 2014. Árin þrjú á undan var samtals sakfellt í níu málum auk tveggja sýknudóma.
Sakfellt var í öllum átta heimilisofbeldismálunum sem komu til kasta lögreglunnar á Suðurnesjum árið 2014. Árin þrjú á undan var samtals sakfellt í níu málum auk tveggja sýknudóma. Vísir/Pjetur
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur afhent tveimur þolendum heimilisofbeldis neyðarhnappa. Áður hefur þremur á umráðasvæði lögreglunnar á Suðurnesjum verið afhentir slíkir hnappar. Þetta kemur fram í Fréttatímanum.

Alda Hrönn Jóhannesdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og fyrrverandi yfirlögfræðingur embættisins á Suðurnesjum, segir í samtali við Fréttatímann að mikil hætta þurfi að vera til staðar til að neyðarhnappar séu afhentir. Lögreglan þurfi að meta sem svo að öryggi viðkomandi sé ógnað og ekki hægt að tryggja það með vægari hætti.

Fyrsti neyðarhnappurinn var afhentur á Suðurnesjum síðastliðið sumar og tveir í kjölfarið. Einn er enn í notkun en hinir voru í notkun í átta mánuði annars vegar og fimm mánuði hins vegar. Þeir sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afhenti eru enn í notkun.

„Við höfum heyrt að þessir hnappar veiti fólki mikla öryggistilfinningu,“ segir Alda Hrönn. Í öllum tilfellunum fimm eru það konur sem hafa fengið hnappana afhenta. Í tilfelli konunnar á Suðurnesjum sem hefur neyðarhnapp er búið að dæma ofbeldismanninn í fangelsi. Hann bíður hins vegar eftir því að hefja afplánun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×