Innlent

Lokað fyrir Twitter og YouTube í Tyrklandi vegna myndbirtinga

Bjarki Ármannsson skrifar
Stjórnvöld reyna að koma í veg fyrir dreifingu myndefnis af gíslatökunni í síðustu viku.
Stjórnvöld reyna að koma í veg fyrir dreifingu myndefnis af gíslatökunni í síðustu viku. Vísir/EPA
Dómstóll í Tyrklandi hefur heimilað stjórnvöldum að loka fyrir samskiptavefsíðurnar YouTube og Twitter þar í landi. Þetta er gert til að reyna að koma í veg fyrir dreifingu myndefnis sem tekið var af gíslatöku og umsátri í Istanbúl í síðustu viku.

Þá tóku tveir vopnaðir menn tyrkneskan saksóknara í gíslingu í dómshúsi í borginni og birtu myndir á samskiptamiðlum af gíslatökunni. Meðal annars mátti sjá mennina beina byssu að höfði saksóknarans. Mennirnir létu allir þrír lífið í áhlaupi lögreglu.

Yfirvöld í Tyrklandi hafa ásakað þá sem deila myndefninu um að dreifa hryðjuverkaáróðri en árásarmennirnir tilheyrðu marxistahópnum DHKP-C, sem tyrkneska ríkisstjórnin skilgreinir sem hryðjuverkasamtök.

Dómurinn sem féll í dag nær alls til 166 vefsíðna. Ásamt Twitter og YouTube var lokað fyrir Facebook en sú lokun virðist hafa verið afturkölluð eftir að vefurinn fjarlægði allt myndefnið. Áður höfðu stjórnvöld komið í veg fyrir að dagblöð gætu birt myndirnar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem tyrknesk stjórnvöld grípa til þessara ráða. Samkvæmt upplýsingum frá Twitter er Tyrkland það land sem oftast óskaði eftir því að láta fjarlægja efni af vefnum milli júlí og desember árið 2014.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×