Innlent

Hannaði íþróttabol sem virkar eins og tölva

Hjörtur Hjartarson skrifar
Ungur Íslendingur vinnur nú að því að hanna og framleiða íþróttabol sem vonir standa til að slái í gegn á risavöxnum heilsuvörumarkaði í Bandaríkjunum. Bolurinn er í raun tölva sem mælir lífeðlisfræðilega þætti. Þriggja manna fyrirtæki hans hefur nú þegar fengið einkaleyfi á vörunni og stefnt er á fjöldaframleiðslu innan tíðar.

Umræddur bolur er mikið undratæki. Hann mælir öndun, hreyfingu og hjartslátt svo fátt eitt sé nefnt. Gögnin eru síðan send í tölvu eða síma eigandans og úr þeim er síðan unnið. 50 manna jóghópur í Boston er að prófa vöruna þessa dagana og hafa viðbrögðin verið framar vonum, segir Arnar Freyr Lárusson, vélaverkræðingur og hönnuður.

„Þegar við sýndum fólki sem er að stunda jóga hvað við gátum numið ljómuðu andlit þeirra. Þetta var í fyrsta sinn sem þau gátu séð hvað þau voru að gera á meðan æfingunni stóð og hvernig þau gátu bætt sig á ítarlegri hátt en kennari gat sagt þeim.“

Arnar hefur í félagi við tvo Bandaríkjamenn stofnað fyrirtæki sem hefur aðsetur í Boston. Heilsuvörumarkaðurinn í Bandaríkjunum veltir mörg þúsund milljörðum á hverju ári og er samkeppnin hörð. Arnar segir þó að um einstaka vöru sé að ræða sem vonandi nær athygli.

„24 milljónir manna stunda jóga í Bandaríkjunum og rétt um 27 milljörðum dollara er eytt í jógavörur og búnað,“ segir Arnar.

Það er því eftir miklu að slægjast. En þó sjónunum sé aðallega beint að jógamarkaðnum núna, þar sem öndunin er sérstaklega mikilvæg, er það aðeins fyrsta skrefið.

„Til dæmis eins og að greina kæfisvefn eða fólk með lungnateppusjúkdóm. Við getum numið streitu hjá fólki og hvenær það er að anda þannig að það veldur streitu. Í kjölfarið getum við svo þjálfað það upp í að róa sig niður með ákveðnum öndunartækni,“ segir Arnar.

Arnar mun frumsýna lausnir sínar á alþjóðlegu ráðstefnunni Point Zero sem fer fram í Gamla bíó þann 22. april næstkomandi. Arnar verðurí hópi fyrirlesara sem gefa gestum ráðstefnunnar smjörþefinn af framtíðinni. Til umfjöllunar á ráðstefnunni verða þær gríðar hröðu breytingar á viðskiptaumhverfi heimsins sem hófust með tilkomu stafrænna viðskipta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×