Fótbolti

Falcao: Þarf að finna mér lið þar sem ég fæ að spila

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Kólumbíski framherjinn Falcao hefur átt erfitt uppdráttar hjá Manchester United á tímabilinu, þar sem hann hefur verið í láni frá franska liðinu Monaco.

Hann hefur lítið fengið að spila hjá stjóranum Louis van Gaal og þær mínútur sem hann hefur fengið hefur hann nýtt misvel.

Falcao var síðast í byrjunarliði United í febrúar og hann viðurkennir að hann þurfi að huga að framtíð sinni.

„Ég mun auðvitað setjast niður og ræða mína framtíð þegar tímabilinu lýkur. Þá verða málin greind og ákveðið hvað sé best fyrir mig að gera,“ sagði hann í útvarpsviðtali í heimalandinu.

„Það er augljóst að ég þarf að finna mér stað þar sem ég hef stöðugleika og get spilað.“

„En ég er algjörlega einbeittur að félaginu. Það eru átta leikir eftir og allt getur gerst.“

Hann segist ánægður hjá Manchester United, þrátt fyrir allt, og að ekkert ósætti sé á milli hans og Van Gaal.

„Ég reyni að haga mér alltaf vel og vera eins faglegur og ég get. Svo reyni ég að nýta mér þær mínútur sem hann gefur mér. Það er allt og sumt.“

„Ég er ánægður með hvernig viðmót liðsfélaga minna og stuðningsmannanna hefur verið. Ég mun berjast til loka hjá Manchester United.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×