Innlent

Könnun Persónuverndar á lokastigum frá því í nóvember

Samúel Karl Ólason skrifar
Eyjólfur Ármannsson.
Eyjólfur Ármannsson. Vísir/Valli
Frumkvæðisathugun Persónuverndar á því hvort stjórnmálaflokkar haldi lista yfir stjórnmálaskoðanir fólks, sem hófst í júlí í fyrr, er ekki lokið. Lögmaðurinn Eyjólfur Ármannsson, segir rannsóknina hafa staðið yfir óeðlilega lengi.

Athugun Persónuverndar snýr að því að hvort stjórnmálaflokkar haldi lista yfir upplýsingar um stjórnmálaskoðanir fólks. Athugun þessi beindist að stjórnmálaflokkum sem buðu fram í fjórum stærstu sveitarfélögum landsins síðustu sveitarstjórnarkosningum. Reykjavík, Kópavogi,Hafnarfirði og á Akureyri.

Vísir sagði frá því í byrjun júlí í fyrra að Persónuvernd hefði beðið stjórnmálaflokkana um upplýsingar um hvort, og eftir atvikum hvaða, upplýsingar væru skráðar hjá þeim um félagsmenn og um aðra en félagsmenn.

Eyjólfur Ármannsson, lögmaður, sendi erindi til Persónuverndar fyrir hönd Dögunar – stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði, fyrir tæpu ári síðan þar sem farið var fram á þessa athugun. Um miðjan nóvember síðastliðinn fékk Eyjólfur upplýsingar frá Persónuvernd, um að frumkvæðisathugun Persónuverndar væri ekki lokið, en hún væri á lokastigum. Kom þá fram að Persónuvernd hafði þá borist öll gögn frá stjórnmálaflokkunum.

Eyjólfur segir í samtali við Vísi að hafa bæri í huga að hér sé mál sem lúti að grundvallarmannréttindum fólks, sem er að fólk fái að hafa stjórnmálaskoðanir sínar í friði og þá sérstaklega án allra afskipta andstæðra stjórnmálaflokkar og stjórnvalda.

„Sérstaklega er mikilvægt að fólk sem ekki er undir verndarvæng Fjórflokksins fái notið þessa réttar. Dögun eru lítil samtök og þau einu sem hafi haldið skýrt fram skoðunum andsnúnum hinum valdamiklu sérhagsmunum kvótakerfisins í sjávarútvegi. Mikilvægt er að þessi mikilvægu mannréttindi séu virt og stjórnmálaflokkar séu ekki að skrá niður andstæðar stjórnmálaskoðanir fólks. Það eru lögbrot. Íslendingar þekki fortíðina og sögu sína hvað þetta varðar, að minnsta kosti þá frá síðustu öld en þau mál eru því miður óuppgerð.“

Eyjólfur sagðist hafa í síðustu viku spurt Persónuvernd með tölvupósti hvenær niðurstöðu væri að vænta og hverjar ástæðurnar væru fyrir þessum töfum. Enginn svör hafi enn borist. Eyjólfur segir að þessi töf sé óeðlileg og að þetta hljóti að vera gífurlega viðamikil rannsókn miðað við þann tíma sem hún taki.

„Frá sjónarmiðum mannréttinda og stjórnmálalegum og borgarlegum réttindum eru hagsmunirnir að minnsta kosti miklir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×