Enski boltinn

Steig á brotinn tebolla og verður ekki með um helgina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valencia hefur skorað fjögur mörk fyrir West Ham í vetur.
Valencia hefur skorað fjögur mörk fyrir West Ham í vetur. vísir/getty
Enner Valencia, framherji West Ham United, missir líklega af leik liðsins gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Meiðslin eru í undarlegri kantinum en Valencia steig á brotinn tebolla á heimili sínu og fékk djúpan skurð á stórutá. Valencia fór á spítala eftir atvikið þar sem gert var að sárum hans.

„Við erum ekki alveg viss en líklega nær hann ekki leiknum gegn Arsenal á laugardaginn,“ sagði Sam Allardyce, knattspyrnustjóri West Ham, um Ekvadorann sem gekk í raðir Hamranna í sumar frá Pachuca í Mexíkó.

„Þetta var það síðasta sem við þurftum á að halda í ljósi þess að það eru nokkrir framherjar frá vegna meiðsla,“ bætti Allardyce við en ljóst er að Andy Carroll spilar ekki meira með West Ham á tímabilinu. Þá er Carlton Cole einnig frá vegna meiðsla.

West Ham hefur ekki unnið deildarleik síðan 18. janúar og hefur aðeins fengið þrjú stig úr síðustu sex leikjum sínum. Hamrarnir eru komnir niður í 10. sæti deildarinnar með 39 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×