Innlent

500 reyndu að hringja í 112 á sama tíma á laugardag

Birgir Olgeirsson skrifar
Óveðrið lék marga grátt síðstliðinn laugardag og hér má sjá hvernig tré rifnaði upp með rótum við sænska sendiráðið í Reykjavík.
Óveðrið lék marga grátt síðstliðinn laugardag og hér má sjá hvernig tré rifnaði upp með rótum við sænska sendiráðið í Reykjavík. Vísir/'Olöf
Neyðarlínan ætlar að endurmeta viðbúnað 112 eftir það ástand sem ríkti síðastliðinn laugardag þegar 1.400 símtöl bárust vegna óveðursins. Þegar mest lét reyndu yfir 500 aðilar að hringja á sama tíma í Neyðarlínuna en á tímabili voru mörg dæmi þess að símsvari Neyðarlínunnar segði: „Þetta númer er ekki til“.

Neyðarlínan segir í tilkynningu vegna málsins þetta vera röng skilaboð úr kerfum símfélagana en um var að ræða að allar tengingar voru yfirfullar vegna álags. Vinna símafélögin nú að því í sameiningu að greina orsakir þessa og að tryggja að þetta ástand endurtaki sig ekki.

Neyðarlínan segir ekkert hafa komið fram sem bendir til bilunar í búnaði 112 þjónustunar og mun engu að síður endurmeta viðbúnað 112, afkastagetu tenginga við símfélögn, mögulega forgangsröðun eftir eðli erinda og sérstaka viðbragðsáætlun ef aðstæður sem þessar skapast aftur.

„Þessi reynsla er dýrmæt og verður nýtt til að efla viðbragðskerfið öllum til hagsbóta,“ segir í tilkynningu frá Neyðarlínunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×