Innlent

Ákæru vegna brotlendingar TF-KEX vísað frá dómi

Bjarki Ármannsson skrifar
TF-KEX brotlenti á skírdag 2010 með þrjá farþega innanborðs.
TF-KEX brotlenti á skírdag 2010 með þrjá farþega innanborðs. MYND/ÚR SKÝRSLU RANNSÓKNARNEFNDAR FLUGSLYSA
Ákæru ríkissaksóknara gegn flugmanni Cessna-flugvélarinnar TF-KEX, sem brotlenti á skírdag árið 2010, hefur verið vísað frá Hæstarétti. Flugmaðurinn var ákærður fyrir almannahættubrot, líkamsmeiðingar af gáleysi og brot gegn loftferðalögum.

Héraðsdómur Suðurlands vísaði málinu frá þann 20. febrúar síðastliðinn vegna „bersýnilegra annmarka“ á rannsókn lögreglu á slysinu. Hæstiréttur vísaði áfrýjun ríkissaksóknara hins vegar frá vegna tæknilegra atriða.

Óheimilt að beita skýrslu rannsóknarnefndar sem sönnunargagni

Þrír farþegar voru um borð í TF-KEX er hún brotlenti í hlíðum Langholtsfjalls í Árnessýslu, skammt frá Flúðum, þann 1. apríl 2010. Þar er sumarbústaðabyggð og sögðu sjónarvottar að flugvélin hefði flogið lágt yfir svæðinu. Allir farþegarnir þrír slösuðust talsvert. Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem kom út árið 2013, segir að flugmaðurinn hafi flogið vélinni lítið hlaðinni yfir sumarbústaðabyggðinni án þess að hafa framkvæmt massa- eða jafnvægisútreikninga.

Sjá einnig: Þriðja slysið í lágflugi á fjórum árum

Í frávísunarkröfu flugmannsins ákærða segir að saksókn lögreglu hafi fyrst og fremst byggt á skýrslu nefndarinnar, en ekki sjálfstæðri rannsókn lögreglu. Lög um rannsókn samgönguslysa kveði hins vegar á um að rannsókn skuli eingöngu miða að því að leiða í ljós orsakir slíkra slysa en ekki reyna að skipta sök eða ábyrgð. Skýrslum nefndarinnar skuli jafnframt ekki beitt sem sönnunargögnum í sakamálum.

Röksemdir í kæru úrskurðar ófullnægjandi

Ákæruvaldið hafnaði því fyrir dómi að ákæran væri alfarið byggð á niðurstöðu skýrslunnar. Vissulega hafi verið vísað til tæknilegra atriða í ákærunni en aðrar fullyrðingar séu byggðar á því sem kom fram í framburði vitna við lögreglurannsókn. Meðal annars það að vélinni hafi verið flogið í lítilli hæð í sterkum, hviðóttum vindi.

Héraðsdómur  féllst hinsvegar á frávísunarkröfu flugmannsins og þau rök að lýsing á ætlaðri refsiverðri háttsemi í ákæru byggi í öllum meginatriðum á skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ríkissaksóknari áfrýjaði til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá í gær.

Í úrskurði Hæstaréttar segir að það hafi verið ófullnægjandi að í kæru ríkissaksóknara væri einungis vísað til þeirra sjónarmiða sem komu fram fyrir héraðsdómi. Greinargerð með frekari röksemdum var skilað inn til Hæstaréttar en dómurinn taldi það ekki bæta úr annmörkum á kærunni. Ríkissjóður greiðir málskostnað og þóknun lögmanns hins ákærða.


Tengdar fréttir

Flugmaður neitar sök vegna brotlendingar við sumarhús

Marteinn Einarsson, sem ákærður er vegna brotlendingar flugvélar nærri Flúðum í apríl 2010, neitaði sök við þingfestingu málsins hjá Héraðsdómi Suðurlands. Farþegi sem slasaðist krefst einnar millljónar í miskabætur.

Of þungri vél brotlent við sumarhús

Flugvél sem hrapaði í flugi yfir sumarhúsabyggð var ofhlaðin og í of lítilli hæð til að ná krappri beygju sem flugmaðurinn reyndi að taka. Annar flugmaður, sem var farþegi í vélinni og slasaðist illa, var ósáttur við aðfarir hins en sagði þó ekkert.

Þriðja slysið í lágflugi á fjórum árum

Flugslysið við Hlíðarfjall á Akureyri í fyrra sem Vísir hefur fjallað um í dag er það þriðja á rúmum fjórum árum þar sem flugvél var í lágflugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×