Innlent

Geir Jón um búsáhaldaskýrsluna: „Ég var ekki að skrifa fyrir almenning“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Geir Jón Þórisson segir það koma sér mikið á óvart að skýrslan hafi verið gerð opinber þar sem það sé ekki vaninn með lögregluskýrslur sambærilega þessari.
Geir Jón Þórisson segir það koma sér mikið á óvart að skýrslan hafi verið gerð opinber þar sem það sé ekki vaninn með lögregluskýrslur sambærilega þessari. Vísir/Stefán/Haraldur
Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu og höfundur skýrslu sem gerð var um búsáhaldabyltinguna, segir að skýrslan hafi aldrei átt að birtast almenningi. Hann hafi ekkert haft með birtingu hennar að gera enda var skýrslan birt eftir samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Það láðist hins vegar að afmá persónuupplýsingar úr skýrslunni.  

Persónuvernd komst því að þeirri niðurstöðu að öryggi hafi ekki verið nægilega tryggt við vinnslu persónuupplýsinga í samantekt lögreglu á skipulagi við mótmælin 2008-2011.  Þá var miðlun lögregluskýrslunnar brot á lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga en Geir Jón hafnar því að hafa brotið.

„Hún var ekki til í mín höndum eftir 1. júlí 2012 þegar ég afhenti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins skýrsluna. Það er núverandi lögreglustjóri og embættið í dag sem gerði það. Þau sendu skýrsluna frá sér með þessum hætti að það var hægt að lesa persónulegar upplýsingar úr skýrslunni,“ segir Geir Jón en hann var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni á morgun.

En þú hefur verið sakaður um hluti sem þú ert alls ekki sáttur við og þér hefur fundist vanta vettvang til að koma þinni skoðun á framfæri?

„Já, það virðist ekki hafa verið mikill áhugi á því að tala um þetta við mig. En ég sá það svo í einu blaði að Persónuvernd hafi komist að þeirri niðurstöðu að sá sem gerði skýrsluna hafi brotið lög Persónuverndar með því að gera skýrsluna með þessum hætti en ég kom ekki nálægt því þar sem hún var ekki í mínum höndum. Hún var hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og fór þaðan en ekki frá mér. Ég hef aldrei lekið henni eitt eða neitt.“

Hann segir það koma sér mikið á óvart að skýrslan hafi verið gerð opinber þar sem það sé ekki vaninn með lögregluskýrslur sambærilega þessari. Þá segir Geir Jón að ef að gera átti skýrslu sem svo skyldi birta almenningi þá hefði hún verið gerð á annan hátt en raunin varð.

„Það stóð aldrei til að skýrslan yrði birt opinberlega og sá lögreglustjóri sem bað mig um að gera skýrsluna, honum datt aldrei í hug að birta þessa skýrslu. Hún var eingöngu fyrir hann.“

Aðspurður hvort að oft hafi verið gerðar svipaðar skýrslur segir Geir Jón:

„Já, það hafa oft verið gerðar samantektir og skýrslur um ýmsa atburði sem að lögreglan hefur hjá sér til að súmmera upp það sem hefur gerst.“

Hann segir það hafa verið alveg skýrt í upphafi að hann hafi verið að skrifa skýrslu fyrir lögreglustjórann:

„Ég var ekki að skrifa fyrir almenning.“

Hlusta má  á viðtalið við Geir Jón í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Engar nýjar kærur hafa borist vegna lögregluskýrslunnar

„Það er ekki mitt að meta það hvort það hafi verið mistök eða ekki,“ sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sem kom í gær fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vegna skýrslu um aðgerðir lögreglunnar við mótmæli árin 2008 til 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×