Innlent

„Hann liggur ofan á mér og er að hamra á mér“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Maðurinn í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Vísir/GVA

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn rúmlega tvítugum karlmanni fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Maðurinn er ákærður fyrir fjórar líkamsárásir og fyrir dómi í morgun játaði hann sök í tveimur þeirra.

Annars vegar játaði hann sérstaklega hættulega líkamsárás á 27 ára gamlan karlmann fyrir utan skemmtistaðinn Glaumbar í mars 2013. Hins vegar játaði hann líkamsárás á 25 ára gamla konu fyrir utan skemmtistaðinn Park í maí 2014, en neitaði að hafa ráðist á vinkonu hennar sama kvöld, líkt og hann er einnig ákærður fyrir.

Þá neitaði hann einnig að hafa slegið annan mann í bæði höfuð og bak með kúbeini í Öskjuhlíðinni, um 18 klukkutímum eftir að árásin fyrir utan Park átti sér stað.

Á að hafa slegið konuna ítrekað með flösku í höfuðið
Fyrir dómi í dag kvaðst ákærði ekki kannast við það að hafa ráðist á tvær konur umrætt kvöld fyrir utan Park. Hann mundi eftir því að hafa slegið til einnar konu sem hafi verið að skipta sér af honum og vini hans en þeir stóðu fyrir utan skemmtistaðinn og voru að rífast.

Konan, sem maðurinn játaði að hafa ráðist á, bar vitni í dag og sagði að ákærði hafi ráðist á sig. Þegar vinkona hennar reyndi svo að stía þeim í sundur hafi hann ráðist á hana.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa slegið konuna í bringuna með krepptum hnefa en við það á hún að hafa fallið í götuna. Í kjölfarið á hann að hafa slegið konuna ítrekað í höfuðið með glerflösku auk þess sem hann á hafa sparkað í hana.

Vinkona konunnar mundi eftir að hafa séð manninn sparka í hana þar sem hún lá á jörðinni. Hún gat hins vegar ekki staðfest að ákærði hafi slegið konuna með glerflösku í höfuðið en sjálf lá vinkonan í jörðinni eftir að maðurinn réðst á hana.

„Af hverju í ósköpunum grípur enginn inn í þetta?“
Konan sem maðurinn er ákærður fyrir að hafa ráðist á kom einnig fyrir dóminn í dag. Hún lýsti því að hún hafi stokkið á ákærða þar sem hann hafi verið ofan á vinkonu hennar og hún hafi ætlað að draga hann af henni.

„En hann snýr sér við og ræðst á mig og sparkar mig niður í jörðina. Hann liggur ofan á mér og lemur mig með flösku í hausinn þangað til hún brotnar. [...] Hann liggur ofan á mér og er að hamra á mér,“ sagði konan.

Hún kvaðst hafa legið í jörðinni og hafi ekkert getað gert. Hún hafi þó reynt að sveigja andlitið undan og „fela það ofan í götuna“ til að verja sig. Þá sagði hún að mjög margir hafi verið þarna í kring:

„Það eina sem ég hugsaði var „Af hverju í ósköpunum grípur enginn inn í þetta?““

Situr í gæsluvarðhaldi vegna rofs á skilorði
Konan sagðist hafa verið óvinnufær vegna árásarinnar allt seinasta sumar og þá þjáist hún af áfallastreituröskun.

Fjöldi vitna kom fyrir dóminn, meðal annars dyraverðir og gestir á skemmtistaðnum Park. Fá vitni gátu borið nákvæmlega hvað hafði gerst en einn af dyravörðunum gat þó staðfest að hann hafði séð ákærða liggja ofan á konunni og lemja hana í hausinn með flösku. 

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því 8. október síðastliðinn vegna rofs á skilorði en í júlí 2013 var hann dæmdur í sextán mánaða skilorðsbundið fangelsi, fyrir meðal annars fimm líkamsárásir.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.